Búnir að byggja fyrir um 60% af heildarkostnaði

Unnið við tónlistarhúsið
Unnið við tónlistarhúsið mbl.is/Árni Sæberg

Stefnt er að því að tónlistarhúsið nýja við Reykjavíkurhöfn, Harpa, verði tekið í notkun í maí á næsta ári og hafi þá kostað alls 27,5 milljarða króna. Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portus hf., eiganda Hörpu, segir að ekki þurfi að leita til ríkisins vegna framhalds framkvæmdanna og ekki heldur til að standa undir rekstrinum þegar hann hefst.

Ríkið og Reykjavíkurborg ákváðu þegar í upphafi að gera þjónustusamning við rekstraraðila tónlistarhússins og munu leggja fram ríflega 800 milljónir á ári. Verður féð notað til að greiða vexti og afborganir af lánum, að sögn Péturs.

„Við reiknum með jákvæðu fjárstreymi strax á þriðja ári, árið 2014,“ segir Pétur í samtali við Morgunblaðið.

 Hann segir að fram að hruni hafi verið búið að leggja um 10 milljarða króna í húsið, inni í þeirri tölu væri fyrst og fremst lán frá Landsbankanum en einnig framlag gamla Portus og Nýsis.

Þessir 10 milljarðar hefðu nú verið afskrifaðir, þeir hefðu hafnað í Gamla Landsbankanum. Gengið hefði verið frá sambankaláni upp á 14,5 milljarða króna í gær til að klára húsið. Væri fjárhæðin framreiknuð með hliðsjón af gengis- og verðbólguspám seðlabankans myndi hún vera orðin um 17,4 milljarðar í maí á næsta ári. Harpa myndi þá kosta alls um 27,5 milljarða króna en þegar væri búið að leggja um 16 milljarða í húsið, sem jafngilti um 60% af heildarkostnaði við það.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert