Fjármálaráðherra segir mikilvægt að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis komi fram áður en þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fer fram. Hann segir eðlilegt að forystumenn stjórnmálaflokkanna beri sig saman um það hvort fresta eigi atkvæðagreiðslunni.
Ríkisstjórnin ræddi í morgun þá frestun sem hefur orðið á útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði að loknum fundi að það sé áhyggjuefni ef birting skýrslunnar og þjóðaratkvæðagreiðslan vegna Icesave lendi nálægt hvoru öðru í tíma.
Steingrímur undirstrikaði að í skýrslunni væri fjallað um orsakir og aðdraganda bankahrunsins, þar með hruns Landsbankans sem sé rót Icesave málsins.