Afrakstur og niðurstöður rannsókna Fornleifastofnunar Íslands á víkingabyggð að Hofstöðum í Mývatnssveit hefur nú verið gefin út í veglegu riti. Fram kemur í tilkynningu að verkið marki tímamót í íslenskri fornleifafræði.
„Hofstaðaminjar eru með þekktustu fornleifum á landinu. Á árunum 1991-2002 gerði alþjóðlegur hópur vísindamanna þar umfangsmiklar fornleifarannsóknir. Var verkefnið unnið með stuðningi Rannís, National Geographic og fleiri aðila. Við lok uppgraftar tók úrvinnsla og sérfræðirannsóknir sem stóðu yfir í átta ár og er þeim nú lokið.
Ritstjóri verksins er Dr. Gavin Lucas, en að bókinni koma 45 vísindamenn á mörgum sviðum fornleifafræði, fornvistfræði, jarðvegsfræði og skyldra greina. Þar er varpað nýju ljósi á forsögu Hofstaða, framvindu landnáms í lok landnámsaldar, aðlögun fólks og áhrif manns á umhverfið.
Verkið markar tímamót í íslenskri fornleifafræði og mun setja ný viðmið við útgáfu á niðurstöðum uppgrafta en það er um 500 blaðsíður að lengd með yfir 200 teikningum og myndum. Bókin er á ensku með liprum og greinargóðum útdrætti á íslensku,“ segir í tilkynningu.