Ísbjörninn ófundinn

Ísbjörn, sem felldur var á Þverárfjalli í júní 2008.
Ísbjörn, sem felldur var á Þverárfjalli í júní 2008.

„Við misstum sjónar af honum. Það gerði leiðinda él og misstum hann hérna yfir ána og erum að leita að honum,“ segir lögregluvarðstjórinn Jón Stefánsson í samtali við mbl.is. Hann leitar nú að ísbirni sem sást í Þistilfirði um kl. 13:15 í dag.

Íbúar á bænum Sævarlandi við Þistilfjörð sáu björninn og höfðu samband við neyðarlínuna. Að sögn Jóns er björninn lítill, en hann hefur sjálfur séð dýrið. „Hann hljóp bara eftir veginum,“ segir Jón, sem ók á eftir dýrinu.

„Það er náttúrulega hætta þegar svona er á ferðinni,“ segir Jón aðspurður. „Hann var hræddur og það er verra ef þetta er hrætt.“

Hann bindur vonir við að finna dýrið fljótlega, en myrkur mun skella á eftir um klukkustund. 

Íbúar í Sævarlandi eru óhultir. Þau sögðu í samtali við mbl.is að dýrið væri hálf ræfilslegt. 

Þrjár skyttur eru komnar á svæðið til að fella dýrið. 

Á vef Umhverfisstofnunar segir, að unnið sé að viðbrögðum í samráði við lögreglu og önnur yfirvöld. Mat lögreglu á aðstæðum sé, að nauðsynlegt sé að fella björninn við fyrsta tækifæri og taki Umhverfisstofnun undir það.

Niðurstaða starfshóps um viðbrögð við landgöngu hvítabjarna sem skipuð var í kjölfar landgöngu tveggja hvítabjarna árið 2008 var fella beri hvítabirni sem ganga á land. Fyrir því eru þrenn meginrök, í fyrsta lagi öryggissjónarmið, í öðru lagi stofnstærðarrök og í þriðja lagi kostnaður við björgunaraðgerðir. Til þess að reyna björgun þurfa að vera ákjósanlegar aðstæður, s.s. að fólki standi ekki hætta af, skyggni sé gott og tryggt sé að dýrið sleppi ekki út í vatn eða sjó.

Umhverfisstofnun segir, að aðstæður í Þistilfirði séu ekki ákjósanlegar til þess að reyna björgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert