Ísland er leiðandi ríki í umhverfismálum, að mati sérfræðinga Yale og Columbia háskóla í Bandaríkjunum, sem taka árlega saman lista yfir frammistöðu ríkja á þessu sviði. Samkvæmt listanum fyrir árið 2010, sem birtur var í morgun, er Ísland í 1. sæti og á eftir koma Sviss, Kosta Ríka og Svíþjóð.
Vísað er til þess að nánast öll orka á Íslandi fáist frá endurnýjanlegum orkugjöfum, það er vatnsafli og jarðgufu. New York Times hefur eftir Daniel C. Esty, sem hefur yfirumsjón með gerð listans, ein af ástæðunum fyrir því hve Ísland fær svo háa einkunn, 93,5 stig af 100 mögulegum, kunni að vera efnahagshrun landsins.
Á listanum, sem birtur var í dag í tengslum við ráðstefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Davos í Sviss, eru 163 ríki metin á grundvelli frammistöðu sinnar á ýmsum sviðum, svo sem stöðu umhverfismála, náttúruverndar, loftmengunar, meðferð úrgangs og því hvort dregið hafi úr losun gróðurhúsalofttegunda.