Daniel Gros, framkvæmdastjóri miðstöðvar um Evrópurannsóknir, lýsti þeirri skoðun á málþingi á vegum Norðurlandaráðs í gær, að Íslendingar ættu þegar að hefja endurgreiðslur lána í stað þess að safna skuldum og þá gæti hagvöxtur hafist að fimm árum liðnum.
Gros er hagfræðingur og situr í stjórn Seðlabanka Íslands.
Fram kemur á vef Norðurlandaráðs, að á málþinginu hafi Gros svarað spurningu Bente Dahl, formanns Miðflokkahópsins í Norðurlandaráði, um hvernig Norðurlöndin gætu gegnt mikilvægara hlutverki við að aðstoða Íslendinga úr þessari erfiðu stöðu.
Hann ítrekaði þá skoðun að Íslendingar ættu ekki að þiggja fleiri lán, hvorki frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né öðrum. Þá ættu Íslendingar að draga enn frekar úr neyslu, ekki halda genginu óeðlilega háu og hefja tafarlaust endurgreiðslur á lánum í stað þess að ýta á undan sér skuldabyrðinni.
Daniel Gros var í Kaupmannahöfn til þess að skýra út fyrir fulltrúum í Miðflokkahópnum, sem sátu janúarfund Norðurlandaráðs, hvernig kreppan varð til og hvers vegna hún varð eins djúp sem raun ber vitni.