Í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar kemur fram það mat, að þörf sé á endurskoðun áfengiskaupaaldurs í samræmi við önnur réttindi. Þá telur starfshópurinn óraunhæft að koma algerlega í veg fyrir áfengisauglýsingar.
Starfshópurinn hefur skilað skýrslu sinni til fjármálaráðherra og verður hún gerð opinber síðar í dag eða á morgun. Næstu skref eru að undirbúa frumvarp fyrir haustþing þar sem tekið verður mið af skýrslunni. Að sögn formanns nefndarinnar þykir ljóst að löggjöfin muni gjörbreytast.
Meginniðurstöður starfshópsins eru að núgildandi löggjöf og markmið hennar endurspegli ekki núverandi framkvæmd og viðhorf til þessa málaflokks. „Að mati starfshópsins er stefna stjórnvalda í áfengismálum ekki nægjanlega ljós og í núgildandi löggjöf er ekki tekið fram með beinum hætti hvernig á að ná markmiðum áfengisstefnunnar.“
Starfshópnum var gert að leggja mat á lagaumhverfi ÁTVR, skattlagningu áfengis, áfengisauglýsingar og markaðssetningu áfengis.
Hvað varðar auglýsingarnar telur hópurinn óraunhæft að koma algjörlega í veg fyrir auglýsingar áfengis. „Starfshópurinn leggur til að heimila skuli auglýsingar áfengis með miklum takmörkunum þó. Slíkt er í samræmi við reglur flestra Norðurlandaþjóðanna og gerir að mati starfshópsins eftirlit skilvirkara og eyðir réttaróvissu sem nú ríkir.“
Einnig telur hópurinn ákaflega mikilvægt að endurskoða lög um ÁTVR í heild, enda um þrjátíu ára gömul lög að ræða. „Ekki er að mati hópsins æskilegt að afnema einkasölu ríkisins á smásölu áfengis heldur þvert á móti að styrkja stöðu ÁTVR.“
Auk þess að styrkja ÁTVR telur hópurinn æskilegt að skoða hvort ekki sé rétt að gera nauðsynlegar breytingar á reglum til að mæta miklum vexti í íslenskri framleiðslu áfengis, t.d. með bráðabirgðaleyfum fyrir þá sem hefja framleiðslu. Tekið er fram að árið 2007 hafi framleiðendur verið fimm en nú mun fleiri og flestir með litlar verksmiðjur.