Taprekstur RÚV tengist ekki þjónustusamningi

Páll Magnússon útvarpsstjóri.
Páll Magnússon útvarpsstjóri. mbl.is

Árstekjur Ríkisútvarpsins ohf. voru 2580 milljónir króna árið 2006, samkvæmt ársreikningi. Síðan þá og fram til nóvember 2009 hækkaði verðlag um 36,7% og byggir þjónustusamningur fyrirtækisins við ríkið, í skilningi Páls Magnússonar útvarpsstjóra, því á að árstekjurnar séu að minnsta kosti 3.525 milljónir nú. 

Tekjur árið 2010 eru hins vegar áætlaðar 3218 milljónir króna og vantar því 307 milljónir upp á, að sögn Páls. Verði verðbólgan umtalsverð á þessu ári verður munurinn enn meiri.

Í þjónustusamningnum segir að markmið hans byggist á þeirri forsendu að tekjur RÚV lækki ekki á tímabilinu. Hvergi er talað um raunvirði teknanna og ártalið 2006 ekki heldur nefnt. Samningurinn tók gildi 1. apríl 2007 og gildir til 2012.

Spurður út í þetta segir Páll að miðað hafi verið við tekjur á árinu 2006 við gerð samningsins og ef ekki sé verið að tala um raunvirði mættu tekjur RÚV rýrna ár frá ári. Þá hefði lágmarkið nú þegar rýrnað um tugi prósenta í verðbólgu. „Þá væri þetta ákvæði merkingarlaust og hefði enga þýðingu,“ segir Páll.

Fram hefur komið að framlög ríkisins til RÚV ohf. á þessu ári og því síðasta nema tæpum milljarði króna umfram innheimt útvarpsgjald og RÚV hefur verið rekið með tapi síðustu árin. Árið 2009 voru á sjötta hundrað milljóna króna skuldir gefnar eftir af ríkinu. Því liggur beint við að spyrja Pál hvort forsendubresturinn geti aðeins orðið öðrum megin frá og taprekstur undanfarinna ára hafi ekki áhrif líka.

Hann segir langa ræðu hægt að hafa um afkomu RÚV. Samningurinn tengist hins vegar ekki afkomu RÚV og ekki sé verið að ræða um heimtur á útvarpsgjaldi, þegar talað sé um tekjur fyrirtækisins í þjónustusamningnum.

Eftir standi að raunvirði þjónustuteknanna sé meira en 300 milljónum undir því sem þær voru 2006. „Við eigum að uppfylla þennan samning okkar megin frá og svo ríkið sín megin frá.“

Spurður hvort miðað sé við þjónustusamninginn í daglegum rekstri segir Páll svo vera og að hann hafi verið efndur að fullu á undanförnum árum og gott betur þegar kemur að því að kaupa efni frá sjálfstæðum framleiðendum dagskrárefnis, allt þar til nú, þegar forsendubrestur sé orðinn af hálfu ríkisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert