Fram kemur á vef ASÍ, að miklar umræður hafi spunnist á fundinum um aðgerðarleysi stjórnvalda í baráttunni gegn atvinnuleysi sem nú fari vaxandi og einnig varðandi greiðsluvanda heimilanna en þar virðist stjórnvöld spila sig stikkfrí og láta fjármálastofnanir um að útfæra úrræðin.
Það þyki miðstjórnarmönnum skjóta skökku við því ljóst sé að bankar verði seint félagsmálastofnanir heldur muni þeir hér eftir sem hingað til fyrst og síðast ganga út frá eigin hagsmunum en ekki skuldarans.
Þá kom fram á miðstjórnarfundinum megn óánægja með áhugaleysi bæði stjórnar og stjórnarandstöðu á framgangi Stöðugleikasáttmálans, sem átti að leggja grunn að nýrri sókn í efnahags- og atvinnumálum.
„Nú vill ríkisstjórnin sem minnst af króanum vita. Þetta er óásættanleg staða þegar atvinnuleysi fer vaxandi og sífellt fleiri heimili stefna í þrot. Aðgerða stjórnvalda er krafist," segir á vef ASÍ.