Yfirheyrslum haldið áfram

Lýður og Ágúst Guðmundssynir, aðaleigendur Exista og Bakkavarar. Erlendur Hjaltason …
Lýður og Ágúst Guðmundssynir, aðaleigendur Exista og Bakkavarar. Erlendur Hjaltason og Sigurður Valtýsson forstjórar Exista. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Yfirheyrslur hafa farið fram hjá embætti sérstaks saksóknara í morgun í kjölfar húsleita hjá Exista, Bakkavör og fleiri aðilum í gær. Fram kom í fréttum RÚV að bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir hefðu verið yfirheyrðir í morgun en þeir komu til landsins í gærkvöldi.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki geta staðfest hverjir væru kallaðir til yfirheyrslu hverju sinni. Almennt gæti hann sagt að yfirheyrslum í málinu yrði framhaldið næstu daga. Í frétt RÚV kom fram að ekki væri búið að kalla til yfirheyrslu forstjóra Exista, þá Erlend Hjaltason og Sigurð Valtýsson.

Um gríðarlega umfangsmikla rannsókn er að ræða, í samstarfi við Serious Fraud Office (SFO) í Bretlandi. Alls tóku hátt í 80 manns þátt í húsleitunum í gær hér á landi og í Bretlandi. Í Bretlandi fóru fram húsleitir í tveimur borgum; London og Lincoln, og þar tóku hátt í 40 manns þátt í aðgerðunum, þar af fjórir starfsmenn sérstaks saksóknara. Annars eins fjöldi tók þátt í aðgerðinni hér í gær, með aðstoð fjögurra fulltrúa frá SFO.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert