Flogið verður á Sif, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar norður í land strax í birtingu í dag til að kanna hvort annar ísbjörn finnist í nágrenni Þistilfjarðar, þar sem ísbjörn var felldur í gær.
Dýrið sem fellt var í gær var ungt að árum og ekki talið ólíklegt að það hafi verið í fylgd með fullorðnum birni. Fleiri tilkynningar um ísbirni hafa ekki borist en engu að síður þykir rétt að hafa varann á og mun Landhelgisgæslan því skima svæðið úr lofti.
Að sögn Friðriks Höskuldssonar, yfirstýrimanns hjá Landhelgisgæslunni, er gert ráð fyrir að leitarflugið taki um 4 stundir. Verið er að leggja af stað í flugið en gert er ráð fyrir að upp úr klukkan 10 verði orðið nógu bjart. Þá er flugvélin búin hitamyndavélum.
Áformað er að leita fyrst í Þistilfirði og á ströndinni þar norðureftir en þar eru stór óbyggð svæði. Einnig er áformað að fljúga yfir norðurströnd landsins allt að Skagatá en flugvélin fer síðan til Ísafjarðar síðdegis þar sem hún á að sinna verkefni.
Þá hvetur lögreglan í Þingeyjarsýslu og Umhverfisstofnun fólk á svæðinu til að vera á varðbergi úti við ef ske kynni að annar björn sé á landinu enda ísbirnir stórhættuleg dýr og það ekki síst ef þeir eru hungraðir.