„Vélin er orðin full ef allir staðfesta. Við náum ekki að setja þetta út í sölu,“ sagði Þorsteinn Guðjónsson, forstjóri Úrvals-Útsýnar. Ferðaskrifstofan er með Boeing 757 leiguflugvél sem tekur 201 farþega og fer til Vínar klukkan 5.30 á laugardagsmorgun með handboltaáhugafólk á úrslitaleiki EM.
Þegar rætt var við Þorstein nú síðdegis var starfsfólk Úrvals-Útsýnar að hringja í þá sem höfðu skrifað sig fyrir sætum. „Það hefur verið hringt nokku þétt í dag og menn spáð og spekúlerað. Um leið og leikurinn var búinn hefur síminn verið rauðglóandi,“ sagði Þorsteinn.
Þorsteinn sagði að farþegunum yrði ekið á hótel með farangur sinn eftir komuna til Vínar. Þaðan verði farið beint á völlinn og horft á undanúrslitaleikina tvo. Síðan muni farþegarnir hafa frjálsan tíma fram að úrslitaleiknum á sunnudag. Beint heimflug verði svo á sunnudagskvöldið.
Heimasíða Úrvals-Útsýnar um ferðina