Norrænum ríkisborgurum vísað úr landi

Kaupmannahöfn.
Kaupmannahöfn. Brynjar Gauti

Fjölmörgum norrænum ríkisborgurum sem ekki geta séð sér farborða hefur verið vísað úr landi með dómsúrskurði, aðallega í Danmörku en einnig í Svíþjóð. Upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar Halló Norden hefur á undanförnum árum borist erindi frá norrænum ríkisborgurum sem hefur verið vísað úr landi frá því norræna ríki sem þeir búa í.

Nú mun borgara- og neytendanefndin kanna málið, að því er segir í tilkynningu frá Norðurlandaráði.

Þungaðar konur meðal þeirra sem vísað er úr landi

Málið snýst meðal annars um þungaðar konur í námi, einstaklinga sem hafa skilið eða eru í atvinnuleit og giftir eru Dönum. Mörg þessara mála eiga það sameiginlegt að einstaklingarnir sem um ræðir hafa fengið félagslega aðstoð í dvalarlandinu.

Johan Linander á skrifstofu um stjórnsýsluhindranir greindi borgara- og neytendanefndinni frá því á fundi í gær að meðal þeirra ástæðna sem oft eru nefndar fyrir brottvísun er að viðkomandi sé ekki nægilega tengdur dvalarlandinu.

Eitt dæmi er norsk námskona sem varð þunguð og átti danskan sambýlismann. Hún varð að taka sér hlé frá námi og fékk þau skilaboð frá sveitarfélaginu að hún yrði að segja sig úr námi til þess að fá fjárhagsaðstoð. Hún gat ekki fengið norskt námslán án þess að vera skráð í nám. Í ljós kom að vegna þess hve stutt hún hafði dvalið í Danmörku gat hún hvort eð er ekki fengið fjárhagsaðstoð þar í landi og því var hún send heim til Noregs.

Mörg þeirra mála sem Halló Norðurlönd hafa skráð eru erfið dómsmál þar sem túlkun á reglum virðist smám saman hafa orðið þrengri.
Í norræna sáttmálanum frá 1994 stendur að allir Norðurlandabúar eigi rétt á að búa í öðru norrænu ríki.

Nefndinfer nú fram á það við ríkisstjórnir norrænu ríkjanna að fá nánari upplýsingar um slíkar brottvísanir til þess að geta unnið frekar í málinu, og ef til vill endurskoðað sáttmálann til þess að orðalagið verði ekki túlkað eins frjálslega og hingað til.

Nefndin mun fjalla um þetta mál á aprílfundi sínum í Ósló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert