Skrifað var í dag undir rammasamning milli Strokks Energy e.hf. og Akureyrarbæjar um að komið verði á fót koltrefjaverksmiðju á Akureyri. Koltrefjar eru notaðar sem styrkingarefni í iðnframleiðslu og leysa af hólmi ýmis þekkt smíðaefni svo sem ál, timbur og stál, sérstaklega í iðngreinum þar sem léttleiki og styrkur eru höfð að leiðarljósi.
Fram kemur í tilkynningu, að Strokkur hyggist vinna að undirbúningi hátækniverksmiðju á Akureyri sem framleiða muni koltrefjar með tækni sem krefjist afhendingar rafmagns til stórnotanda og metangass. Ein af afurðum frá sorphaugum Akureyrar á Glerárdal er metangas sem verksmiðjan getur nýtt í sinni framleiðslu.
Til að tryggja framgang verkefnisins er Akureyrarbær tilbúinn að leigja lóð undir verksmiðjuna á Rangárvöllum. Strokkur mun leitast við að tryggja verkefninu fjármögnun og er rammasamningurinn sem undirritaður var í dag grundvöllur frekari vinnu við þróun verkefnisins. Verkefninu verður stýrt af Strokki í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Akureyrarbæ.
Akureyrarbær tryggir Strokki forgang að nýtingu á a.m.k. 1,5 milljón rúmmetra af metangasi á ári frá sorphaugum Akureyrar á Glerárdal til framleiðslu koltrefja í verksmiðjunni enda finnist slíkt vinnanlegt magn á svæðinu á hverjum tíma. Akureyrarbær eða félag í hans eigu annast gerð gasleiðslu frá sorphaugum bæjarins á Glerárdal að verksmiðjunni auk uppsetningar alls virkjunarbúnaðar til vinnslu gassins.