Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir ákvörðun umhverfisráðuneytisins varðandi Suðvesturlínur vera vonbrigði og hann hafi vonast til þess að niðurstaðan yrði önnur. Þá segir Árni ráðuneytið snúa út úr meginröksemdum NSÍ, að sameiginlegt mat framkvæmda sé grundvöllur þess að almenningur geti átt þann aðgang að mats- og leyfisveitingaferlinu sem lög um mat á umhverfisáhrifum sé ætlaði að tryggja.
Ráðuneytið tekur fram í úrskurði sínum að við matið sé leitað umsagna leyfisveitenda og sérfræðistofnanna og öllum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við frummatsskýrslu á auglýsingartíma. „Þeir tala um að matið feli í sér allt þetta og það er alveg rétt hjá þeim, en þeir fara framhjá þeirri röksemd okkar að sameiginlegt mat sé farsælast til að bæði almenningur og leyfisveitendur geti lagt mat á umhverfisáhrifin."
Árni segir vanta að fram komi í úrskurðinum að um sé að ræða margskonar virkjanir og línulagnir sem enginn viti enn hverjar muni verða vegna þess að virkjanaleyfi hafi ekki verið veitt. Skrifað hafi verið undir fjárfestingarsamning af hálfu ríkisins án þess að það liggi fyrir.
„Mér finnst miður að ekki sé betur tekið á kröfum okkar um sameiginlegt mat vegna þess að það mun gefa betri og skýrari útskýringar þannig að ríkið, sveitarfélög og almenningur viti hvar á að virkja og hvaðan línurnar eiga að koma.
Árni bendir á úrskurð Þórunnar Sveinbjarnardóttur frá 1. Ágúst 2008 um framkvæmdir vegna álvers á Bakka. „Ég hélt að það myndi setja staðalinn og hefði haldið að þessi umhverfisráðherra myndi gera það sama."