Færa má góð rök fyrir því að banna ætti tilteknar fjármálaafurðir vegna þess hversu flóknar þær eru og erfitt að meta áhættuna að mati Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra. Guðlaugur Þór Þórðarson Sjálfstæðisflokki segir að gera eigi a.m.k. þá kröfu að hver fjármálaafurð sé skiljanleg.
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, mælti fyrir frumvarpi á Alþingi í dag um fjármálafyrirtæki, þar sem kveðið er á um hertar reglur og aukið eftirlit.
Við umræður um frumvarpið vakti Guðlaugur Þór m.a. máls á því hversu flóknar og illskiljanlegar margar fjármálaafurðir væru sem urðu til á fjármálamarkaðinum í aðdraganda bankahrunsins. Hættan við að banna þessar afurðir væri hins vegar sú að menn fyndu leiðir til að fara fram hjá banninu. Hugsanlega væri lausnin sú að gera þá kröfu að hver fjármálaafurð væri skiljanleg, fyrir lægi hver áhættan og kostnaðurinn væri o.s.frv. Guðlaugur Þór sagði einnig við umræðurnar að hvata- og kaupaukakerfið í fjármálastofnununum fyrir hrunið hafi verið galið. En þeir sem gagnrýndu það hafi ávallt fengið þau svör að þetta væri fyrirkomulag sem væri allsstaðar við lýði.
Gylfi sagði í andsvari við ræðu Guðlaugs Þórs að fjármálaafurðir fjármálafyrirtækja væru allt of flóknar. „það er búið að búa til alls konar vafninga og afleiður og mjög flóka samninga, sem eru illskiljanlegir nema innvígðum. Að meta áhættuna af slíku er bara mjög erfitt. Það er hægt að færa mjög góð og málefnaleg rök fyrir því að það ætti jafnvel að banna tilteknar tegundir afurða af þeirri einföldu ástæðu að það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir þeirri áhættu, sem fylgir því fyrir fjármálafyrirtæki að vera að sýsla með þær,“ sagði Gylfi.
Í frumvarpinu er m.a. lagt bann við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum. Settar eru þröngar skorður við lánveitingum til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna og Fjármálaeftirlitinu falið víðtækara hlutverk við eftirlit með slíkum viðskiptum. Fjármálaeftirlitið á að setja reglur um hvernig lán sem tryggð eru með veði í eignarhlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum koma til útreiknings á áhættu- og eiginfjárgrunni.