Heimilt að veiða 130.000 tonn af loðnu

mbl.is/Kristinn

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ákvað í dag að heimila veiðar á 130.000 tonnum af loðnu, en þar af koma rúmar 90.000 tonn í hlut íslenskra loðnuskipa samkvæmt ákvæðum samninga við önnur lönd um nýtingu loðnustofnsins við Ísland.

Hafrannóknastofnunin hefur nú mælt loðnustofninn um 530.000 tonn og í kjölfar þess lagt til veiðar á 130.000 tonnum, að því er fram kemur á vef sjávarútvegsráðuneytisins.

„Þó hér sé um takmarkað magn að ræða, ætti þessi ákvörðun Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að vera mikil gleðitínindi. Gera má ráð fyrir að umrætt magn geti svarað til um 10 milljarða króna verðmæta í útflutningi.

Jón Bjarnason, sjvárútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur áherslu á að veiðum og fullvinnslu þessa afla verði hagað með þeim hætti, að sem mestur þjóðhagslegur ábati skapist af þessari auðlind,“ segir á vef ráðuneytisins.

Hrygningarstofn loðnu áætlaður 530.000 tonn

Fram kemur á vef Hafró að rannsóknarskipið Árni Friðriksson hafi verið við mælingar á stærð loðnustofnsins frá því 5. janúar sl. Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson hafi aðstoðað við við mælingarnar dagana 5.-12. janúar.

Áætluð stærð hrygningarstofns loðnu samkvæmt þeirri mælingu var 355 þúsundum tonn. Ekki náðist þó að kanna allt fyrirhugað leitarsvæði sökum íss sem var fyrir vestanverðu Norðurlandi. Því þótti mikilvægt að endurtaka mælingar.

Dagana 22.-29. janúar var Árni Friðriksson við mælingar á stærð stofnsins úti fyrir Austur- og Norðurlandi, ásamt Súlunni EA sem verið hefur til aðstoðar við kortlagningu loðnu á svæðinu.

Loðna fannst allt frá svæðinu útaf Austfjörðum, norður um, allt að 18°V. Alls mældust 348 þús. tonn af hrygningarloðnu á þessu svæði.

Að teknu tilliti til þessara mælinga sé hrygningarstofn loðnu áætlaður um 530 þúsund tonn, en gildandi aflaregla geri ráð fyrir að 400 þúsund tonn séu skilin eftir til hrygningar.

Með hliðsjón af þessu hefur Hafrannsóknastofnunin lagt til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að leyfilegur hámarksafli á vertíðinni 2009/2010 verði 130 þúsund tonn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert