Félag almennra lækna (FAL) lýsir yfir djúpum áhyggjum af sparnaðaráformum í heilbrigðisgeiranum en fyrirhugaðar eru breytingar á vaktafyrirkomulagi Landspítala sem munu leiða af sér aukið vinnuálag, minni starfsánægju, skerðingu á kjörum og aukna hættu á mistökum í starfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá FAL.
„Nú þegar glímir læknastéttin við vitsmunaflótta en komið hefur fram í fréttum að undanförnu að læknar í námi erlendis hyggist margir hverjir ekki snúa heim. Með endurteknum breytingum sem hafa víðtæk áhrif á starfsskilyrði og lífskjör almennra lækna er hætt við að fólk finni sig knúið til að flytja af landi brott, ellegar þurfi það að fórna hagsmunum fjölskyldunnar fyrir starfið," að því er segir í tilkynningu.