Stjórn Félags íslenskra leikara lýsir áhyggjum sínum yfir
þróun mála hjá Ríkisútvarpinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.
„Skyldur RÚV við íslenskan almenning eru ríkar. Þjónusta RÚV við almenning snýst um að gera íslenskan veruleika sýnilegan og skiljanlegan. Það er því hlutverk stofnunarinnar að miðla og afla hlutlægra upplýsinga um þau mál sem skipta íslenskt samfélag máli, hvort sem þau snúa að þjóðfélagsmálum, dægurmálum, menntun eða listum. Skylda RÚV er við íslenskt lýðræðissamfélag sem og íslenskt menningarsamfélag. Niðurskurður á RÚV undanfarna mánuði er staðfesting á siðferðilegu gjaldþroti RÚV gagnvart þessum skyldum sínum.
Það er í hæsta máta óeðlilegt við þær aðstæður sem nú ríkja að opin og lýðræðisleg stjórnsýsla nái ekki yfir stofnun sem RÚV heldur geðþótti pólitískt skipaðs útvarpsstjóra. Slíkt getur ekki annað en grafið undan því trausti sem RÚV þarf að njóta í samfélaginu.
FÍL skorar því á ráðherra að gera alvöru úr því að draga Ohf-væðingu RÚV tilbaka og stokka upp í yfirstjórn stofnunarinnar," segir í yfirlýsingu frá FÍL.