Meint gjaldeyrissvik rannsökuð

Ingibjörg Guðbjartsdóttir, forstöðumaður hjá Seðlabankum, Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota …
Ingibjörg Guðbjartsdóttir, forstöðumaður hjá Seðlabankum, Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota og Gunnar Andersen, forstjóri FME. mbl.is/Árni Sæberg

Í dag hafa verið framkvæmdar húsleitir í fyrirtækjum og heimilum hér á landi. Í þessum aðgerðum hafa tekið þátt um 30 starfsmenn efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins o.fl. Rannsóknin beinist að félaginu Aserta sem er skráð í Svíþjóð og fjórum Íslendingum.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, Gunnar Andersen forstjóri Fjármálaeftirlitsins og Ingibjörg Guðbjartsdóttir forstöðumaður gjaldeyriseftirlits Seðlabankans sögðu frá málinu á blaðamannafundi sem efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra boðaði til og hófst kl. 15.00.

Rannsóknin sem stendur ný yfir snýst um brot á gjaldeyrishöftum og lögum um gjaldeyrisviðskipti. Helgi Magnús sagði að íslensk stjórnvöld hafi notið aðstoðar sænskra yfirvalda við rannsókn málsins. Húsleitir hér voru gerðar á fjórum heimilum og einni starfsstöð.

Málið hófst með kæru Fjármálaeftirlitsins til Ríkislögreglustjóra, að undangenginni skoðun Seðlabankans,  19. nóvember 2009.

Helgi Magnús sagði að aðdragandi málsins sé að hluta til kominn frá Ríkislögreglustjóra. Peningaskrifstofu sem er hjá efnahagsbrotadeild höfðu borist tilkynningar frá tilkynningarskyldum aðilum um grunsamleg viðskipti.

Rannsóknin beinist að félaginu Aserta AB sem er skráð í Svíþjóð og fjórum Íslendingum. Þeir eru taldir hafa raunverulega stjórn á félaginu. 

Brotin sem verið er að skoða varða fyrst og fremst ólögmæta miðlun á gjaldeyri. Leyfi Seðlabankans þarf til að hafa milligöngu um slíka starfsemi. Helgi Magnús sagði að viðskiptin sem um ræði hafi verið umfangsmikil og líkleg til að hafa haft neikvæð áhrif á tilraunir stjórnvalda og Seðlabankans að vinna gegn veikingu krónunnar.

Grunsemdir eru um að þetta félag í Svíþjóð hafi tekið við erlendum gjaldeyri á reikninga sína og skipt honum á aflandsmarkaði fyrir íslenskar krónur og voru þær síðan millifærðar inn á reikninga hér á landi.

„Einnig kemur til skoðunar í tengslum við þetta hugsanlegt peningaþvætti, skattalagabrot og fleira,“ sagði Helgi Magnús. „Ekki hvað síst þá hugsanleg skilaskyldubrot þeirra sem áttu viðskipti við þetta félag.“

Heildarveltan á reikningum Aserta AB og tengdra félaga var 48 milljarðar á því tímabili sem rannsóknin nær til, frá lokum nóvember 2008 og fram í byrjun október 2009.

Hreint innstreymi til landsins í krónum nemur rúmum 13 milljörðum íslenskra króna sem voru millifærðar úr útlendum bönkum inn á íslenska bankareikninga. Þetta eru tæp 7% af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði á þessum tíma. 

Stærstu einstöku viðskiptin eru í kringum einn milljarð. Félagið er talið hafa átt í viðskiptum við um 100 viðskiptavini hér á landi um móttöku íslensku krónanna, bæði einstaklinga og fyrirtæki. Viðskipti þess teygja sig víða á heimsvísu, m.a. til Bandaríkjanna, Luxemborgar, Bretlands og Danmerkur. 

Helgi Magnús sagði að unnið hafi verið að því að tryggja hugsanlega upptöku ávinnings af þessum brotum með kyrrsetningum hér og erlendis í samvinnu við sænsk lögregluyfirvöld. Búið er að kyrrsetja einhver hundruð milljóna króna króna.

Fyrir félaginu Aserta eru skráðir tveir útlendingar, annar frá Guernsey og hinn franskur. Þeir starfa hjá félagi sem er skráð í Genf í Sviss. Það veitir þá þjónustu að stofna félög og skipa stjórnir félaga.

Þeir fjórir Íslendingar sem eru til rannsóknar áttu Aserta AB frameftir síðasta ári og eru taldir vera raunverulegir stjórnendur þess. Íslendingarnir eru ekki með lögheimili hér á landi. Þrír þeirra eru í haldi og yfirheyrslu og sá fjórði í yfirheyrslu. Mennirnir munu hafa starfað við fjármálastarfsemi.

Félagið var stofnað í Svíþjóð snemma árs 2009. Það skipti síðan um nafn þegar nýir eigendur tóku við því. 

Helgi Magnús saksóknari sagði að Íslendingarnir ættu hér fjölskyldur og börn. Það er til skoðunar hvort þeir verði settir í farbann. 

Helgi Magnús sagði að viðskipti af þessu tagi hafi verið ábatasöm. Munur á gengi á íslensku krónunni á aflandsmarkaði og hér hafi verið 15-40%. Hann sagði að efnahagsbrotadeild muni beina kröftum sínum að því að hafa uppi á þessum ávinningi og kyrrsetja hann.

Gjaldeyririnn virðist hafa komist ýmsu móti í hendur þeirra sem áttu viðskipti við Aserta AB. Sumir fengu hann fyrir útflutning vöru, bíla eða tækja en talið að aðrir hafi reynt að komast yfir gjaldeyri með málamyndagerningum, t.d. til kaupum á fasteign eða jafnvel að þeir vildu gefa til góðgerðarmála.

Hámarksrefsing við brotum af þessu tagi er tveggja ára fangelsi. 

Seðlabankinn með mörg mál í farvatninu

Ingibjörg Guðbjartsdóttir sagði þetta vera eitt af 26 málum sem Seðlabankinn hafi þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu um og eitt af sjö málum sem kærð hafa verið til lögreglunnar. Hún sagði um að ræða innstreymi 13 milljarða króna en í heild hafi komið hingað 27 milljarðar króna á tímabilinu svo þetta sé stór hluti þess. Heildarinnstreymi á gjaldeyrismarkaði á þessum tíma var 380 milljarðar.

Ingibjörg sagði að tilkynnt hafi verið um viðskiptavini sænska fyrirtækisins og forsvarsmanna þess til Fjármálaeftirlitsins. Hún sagði að ellefu tilkynningar séu væntanlegar til Fjármálaeftirlitsins á næstu dögum vegna þessara mála.

„Það er ljóst að þetta hefur áhrif á gjaldeyrisforðann okkar og gjaldeyrisstöðugleikann,“ sagði Ingibjörg. „Þetta eru 13 milljarðar sem hefði mátt gefa sér að hefðu átt að berast í erlendum gjaldeyri til landsins og koma til styrkingar krónunnar.“

Hún sagði að um væri að ræða brot á skilaskyldu og ólöglega milligöngu um gjaldeyrisviðskipti. Hún sagði þessi mál tengjast m.a. málamyndagerningum, þ.e. fá gjaldeyri á fölskum forsendum og skipta honum fyrir krónur á aflandsmarkaði. Einnig að þeir sem afli gjaldeyris skili honum ekki hingað með löglegum hætti.

Ingibjörg taldi að með nýjustu takmörkun á gjaldeyrisviðskiptum hafi verið komið að mestu í veg fyrir svona hringi.  

Kallar á breytt skipulag hjá Fjármálaeftirliti

Gunnar Andersen sagði að Fjármálaeftirlitið hafi unnið með Seðlabankanum að rannsókn mála frá síðastliðnu sumri. Þeir hafi fengið tilkynningar um samtals 25 mál. Þessi vinna hafi verið á grunni sérstaks samstarfssamnings milli stofnananna. 

„Af þessum 25 málum sem við höfum fengið til okkar höfum við kært átta mál, þetta er eitt af þessum átta,“ sagði Gunnar. Önnur eru enn í rannsókn og kunna sum þeirra að enda á sama hátt og þetta mál en önnur með stjórnvaldssekt.

Gunnar sagði málin vera umfangsmikil og fleiri á leiðinni. Það kalli á það að hugað verði að skipulagi hjá Fjármálaeftirlitinu til að hámarka virkni í rannsóknunum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert