Opinberum störfum á vegum ríkisins fjölgaði um 2.139 stöðugildi í Reykjavík á seinustu tíu árum og um 1.068 stöðugildi á Norðausturlandi á sama tíma. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra sem dreift hefur verið á Alþingi.
Í svarinu sem lagt er fram við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, kemur fram að störfum á vegum ríkisins, þ.m.t. hjá opinberum hlutafélögum, hefur hlutfallslega fjölgað mest í Norðvesturkjördæmi síðustu 10 árin. En raunfjölgun stöðugilda er mest í Reykjavíkurkjördæmunum síðustu 10 árin. Störfum á vegum ríkisins, þ.m.t. hjá opinberum hlutafélögum, hefur ekki fækkað í neinu kjördæmi landsins síðustu 10 árin.
Heildarfjöldi stöðugilda hjá ríkinu og opinberum hlutafélögum var 18.819 í lok seinasta árs en fyrir tíu árum var fjöldi stöðugilda 13.940.