Ólafur Ragnar ræðir stöðu Íslands við fjölda fjölmiðla

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands Reuters

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur átt viðræður við fjölda áhrifamanna á alþjóðavettvangi, í fjármálalífi og efnahagsmálum á Alþjóða efnahagsþinginu í Davos.

Þá hefur forseti verið í ítarlegum viðtölum við fjölmiðla: BBC, bæði sjónvarp og útvarp, og sjónvarpsstöðvarnar CNN, CNBC, Bloomberg, Reuters og Al Jazeera, og var um að ræða heimsútsendingar þessara sjónvarpsstöðva. Þá hefur forseti rætt við blaðamenn Wall Street Journal, Times á Írlandi og fleiri prentmiðla, að því er segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.

„Í öllum viðtölunum ræddi forseti um stöðu Íslands og framtíðarhorfur, lærdómana sem draga má af bankahruninu og hinni alþjóðlegu fjármálakreppu sem og nauðsyn samstarfs þjóða við endurreisn efnahagslífsins.

Þá var forseti málshefjandi á samræðufundi stjórnenda banka, fjármálafyrirtækja og seðlabanka frá Evrópu og Bandaríkjunum þar sem fjallað var um lærdómana af reynslu síðustu missera og áherslur á endurbyggingu hins alþjóðlega fjármálakerfis. Einnig var forseti málshefjandi á fundi stjórnenda margra helstu fjölmiðlafyrirtækja heims þar sem rætt var um hvernig fjölmiðlar hefðu fjallað um fjármálakreppuna og stöðu einstakra landa sem og um nauðsynlegar umbætur í alþjóðlegri fjölmiðlun svo að hún yrði raunsannari og efnisríkari," segir í tilkynningu.

Forseti Íslands átti einnig formlega fundi með forseta Slóveníu dr. Danilo Türk og forseta Lettlands Valdis Zatlers. Á fundum forsetanna var rætt um reynslu landanna í glímunni við fjármálakreppuna, erfiðleikana sem þjóðirnar fást nú við og nauðsyn samvinnu við aðra um lausnir.

Þá gerðu forsetar Slóveníu og Lettlands grein fyrir stöðu landa sinna innan Evrópusambandsins og lýstu báðir áhuga á að heimsækja Ísland á þessu ári. Forseti Slóveníu hefur sérstakan áhuga á samvinnu við Íslendinga um nýtingu jarðhita í Slóveníu, bæði til orkuframleiðslu og í tengslum við arðbærari landbúnað.

Í dag verður forseti meðal málshefjenda á málþingum um eflingu alþjóðlegs samstarfs á sviði efnahagsmála og fjármálalífs, hvernig endurskipuleggja eigi eftirlitsstofnanir og koma á meira gagnsæi og ríkari ábyrgð. Einnig mun forseti í dag taka þátt í umræðum um fæðuöryggi og aðgerðir í sjálfbærri landnýtingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert