Meðal þeirra sem eru grunaðir um brot á gjaldeyrishöftum og lögum um gjaldeyrisviðskipti eru þeir Ólafur Sigmundsson, Gísli Reynisson og Markús Máni Michaelsson, skv. heimildum mbl.is. Alls eru þrír menn í haldi í lögreglu og sá fjórði í yfirheyrslu.
Starfsmenn efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins hafa unnið að rannsókn málsins, sem beinist að félaginu Aserta, sem er skráð í Svíþjóð, og fjórum Íslendingum. Málið var kynnt á blaðamannafundi í dag.
Grunsemdir eru um að félagið hafi tekið við fjármunum á reikninga sína án þess að hafa leyfi til þess frá Seðlabankanum. Það hafi keypt krónur á aflandsmarkaði. Heildarveltan á reikningum þessa félags og tengdra félaga er 48 milljarðar á því tímabili sem rannsóknin nær til.
Fyrir félaginu Aserta eru skráðir tveir útlendir einstaklingar. Fjórir Íslendingar, sem ekki eru búsettir á Íslandi, eru taldir vera raunverulegir stjórnendur þess. Þrír þeirra eru í haldi og sá fjórði í yfirheyrslu, sem fyrr segir. Mennirnir hafa starfað við fjármálastarfsemi.
Fram kom á blaðamannafundinum að íslensk stjórnvöld hafi notið aðstoðar sænskra yfirvalda við rannsókn málsins.
Þá kom fram að aðdragandi málsins sé að hluta til kominn frá
Ríkislögreglustjóra. Peningaskrifstofu sem er hjá efnahagsbrotadeild
höfðu borist tilkynningar frá tilkynningarskyldum aðilum um grunsamleg
viðskipti.