Áfram Ísland

Áfram Ísland!
Áfram Ísland! mbl.is/Ómar

 Flestir Íslendingar sitja nú límdir við skjáinn og fylgjast með íslenska karlalandsliðinu í handknattleik leika gegn Frökkum í Austurríki. Fjölmargir stuðningsmenn íslenska liðsins eru samankomnir í íþróttahúsinu við Hlíðarenda og hvetja liðið til dáða. Hlé var gert á þjóðfundi á Egilsstöðum á meðan leikurinn stendur yfir enda fáir sem vilja missa af þessum viðburði.

Í grein Andra Karls sem birtist í Morgunblaðinu í dag kom fram að sannkallað handknattleiksæði hefur heltekið íslensku þjóðina. Sama hvar komið er ræða menn um gengi íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í Austurríki og ef áhorfstölur Capacent eru skoðaðar sést hversu stór hluti þjóðarinnar fylgist með á skjánum.

Flestir horfðu á leik Íslands og Danmerkur í riðlakeppninni en þá var uppsafnað áhorf 81,7%. Til samanburðar má nefna að uppsafnað áhorf á áramótaskaupið síðasta var 78% og árið 2008 var það 82,2%. Landsleikurinn kemst þó ekki með tærnar þar sem Evróvisjón hefur hælana. Fátt virðist sameina þjóðina betur og uppsafnað áhorf á framlag Jóhönnu Guðrúnar var 92%. Úrslitakeppni Evróvisjón árið 2008 fékk einnig gífurlegt áhorf, eða 91%.

Verður met sett í dag?

Þó að mest áhorf hafi verið á leik Íslands og Danmerkur er það einnig mikið á aðra leiki liðsins. Þannig mældist um 70% uppsafnað áhorf á leik Íslands og Noregs. Taka ber fram að hann var leikinn um miðjan virkan dag, og ljóst að ekki höfðu allir sem vildu kost á að sjá hann. Til samanburðar var leikurinn gegn Dönum kl. 19.15 að kvöldi laugardags. Áhorf á leiki Íslands og Króatíu og Íslands og Rússlands mældist svo 67% og 66%.

Þessar tölur eru ekki síst athyglisverðar ef skoðað er uppsafnað áhorf á tvo síðustu leiki Íslands á Ólympíuleikunum í Peking. Í undanúrslitum lék íslenska liðið gegn því spænska í hádeginu á föstudegi og var uppsafnað áhorf 73%. Áhorf á sjálfan úrslitaleikinn var litlu minna, 66%, en hafa verður í huga að hann var leikinn kl. 7.45 að íslenskum tíma.

En það eru ekki aðeins íslensku strákarnir sem vekja áhuga því leikir annarra liða hafa fengið mikið áhorf. Þannig mældist uppsafnað áhorf 44,1% á leik Serbíu og Danmerkur og í aldurshópnum 12-49 ára mældist 46% áhorf á leik Austurríkis og Serba.

Íslendingar standa svo sannarlega með Strákunum okkar - hópur fólks …
Íslendingar standa svo sannarlega með Strákunum okkar - hópur fólks er komið saman á Hlíðarenda að fylgjast með mbl.is/Ómar
Stemming á Hlíðarenda
Stemming á Hlíðarenda mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert