Hafa náð báðum úr sprungunni

Þyrla Landhelgisgæslunnar að koma til lendingar á Landspítalanum
Þyrla Landhelgisgæslunnar að koma til lendingar á Landspítalanum Ljósmynd:Jóhann Kristjánsson

Búið er að ná bæði konu og barni upp úr sprungu sem þau lentu í á Langjökli fyrr í dag. Þyrla er komin til Reykjavíkur með annað þeirra, en þau fara bæði til aðhlynningar á slysa- og bráðadeild Landspítalans. Önnur þyrla er nýlega lögð af stað frá Langjökli með hina manneskjuna.

Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan fólksins.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag voru konan og barnið ásamt hópi fólks í jeppaferð á jöklinum. Um klukkan eitt bárust björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Akranesi, Borgarnesi og höfuðborgarsvæðinu tilkynning um að tvær manneskjur hefðu fallið í sprungu á Langjökli vestanverðum.

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á jöklinum rétt eftir klukkan hálf tvö með björgunarsveitarfólk. Nokkrar þyrluferðir voru farnar milli höfuðborgarsvæðisins og Langjökuls, meðal annars með búnað frá rústabjörgunarsveitinni og lækna.

Þá fór þónokkur fjöldi björgunarsveitarfólks landleiðina og upp á jökulinn á snjósleðum, en alls tóku rúmlega hundrað einstaklingar þátt í björguninni uppi á jöklinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka