Hafrannsóknastofnun lagði í gær til að leyfðar yrðu veiðar á 130 þúsund tonnum af loðnu í vetur. Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, ákvað í framhaldinu að heimila veiðar á því magni, en þar af koma rúm 90 þúsund tonn í hlut íslenskra skipa samkvæmt ákvæðum samninga við önnur lönd um nýtingu stofnsins.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að umrætt magn geti svarað til um 10 milljarða króna verðmæta í útflutningi. Þar segir ennfremur að ráðherra leggi áherslu á að veiðum og fullvinnslu þessa afla verði hagað með þeim hætti, að sem mestur þjóðhagslegur ábati skapist.
Fyrsta loðnuskipið, Vilhelm Þorsteinsson, er þegar komið á miðin og aðrir gætu hafið veiðar næstu daga. Útgerðarmenn munu fylgjast náið með hrognafyllingu loðnunnar og reyni að veiða hana þegar hún er verðmætust. Þeir sem rætt var við í gær fögnuðu úthlutuðum kvóta og sögðust bjartsýnir á að meira fyndist af loðnu. Þeir bentu á að sum árin hefði loðna ekki fundist fyrr en undir lok febrúar. Loðnuvertíð hefur oft staðið fram yfir miðjan mars.
Útgerðarmenn giskuðu á að útflutningsverðmæti þeirra 90 þúsund tonna sem koma í hlut Íslendinga yrði yfir 8 milljörðum króna. Verð á loðnuafurðum er hátt um þessar mundir og gengið hagstætt útflutningsgreinum. Norðmenn munu væntanlega bæði frysta loðnuhrogn og loðnu fyrir Japan í vetur og með auknu framboði muni verðin frá því í fyrravetur lækka. Þá var lítið framboð og verð í hæstu hæðum. Færeyingar og Grænlendingar landa sínum afla líklega hér.
Áfram verður fylgst með hegðun og göngum loðnunnar og fylgist Árni Friðriksson næstu daga með göngunni djúpt út af Suðausturlandi. Fyrsta gangan gæti á næstunni þétt sig og komið upp á grunnið. Metið verður eftir helgi hvort Súlan verður send til leitar á ný.
Dagana 22.-29. janúar var Árni Friðriksson við mælingar á stærð stofnsins úti fyrir Austur- og Norðurlandi, ásamt Súlunni EA sem verið hefur til aðstoðar við kortlagningu loðnu á svæðinu. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd fannst loðna allt frá svæðinu út af Austfjörðum, norður um, allt að 18°V. Alls mældust 348 þús. tonn af hrygningarloðnu á þessu svæði.
Að teknu tilliti til þessara mælinga er hrygningarstofn loðnu áætlaður um 530 þúsund tonn, en gildandi aflaregla gerir ráð fyrir að 400 þúsund tonn séu skilin eftir til hrygningar, segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun.