Sannkallað handknattleiksæði hefur heltekið íslensku þjóðina. Sama hvar komið er ræða menn um gengi íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í Austurríki og ef áhorfstölur Capacent eru skoðaðar sést hversu stór hluti þjóðarinnar fylgist með á skjánum.
Flestir horfðu á leik Íslands og Danmerkur í riðlakeppninni en þá var uppsafnað áhorf 81,7%. Til samanburðar má nefna að uppsafnað áhorf á áramótaskaupið síðasta var 78% og árið 2008 var það 82,2%.
Landsleikurinn kemst þó ekki með tærnar þar sem Evróvisjón hefur hælana. Fátt virðist sameina þjóðina betur og uppsafnað áhorf á framlag Jóhönnu Guðrúnar var 92%. Úrslitakeppni Evróvisjón árið 2008 fékk einnig gífurlegt áhorf, eða 91%.
Klukkan eitt í dag verður flautað til leiks í viðureign Íslendinga og Frakka. Allar líkur eru á því að áhorf verði ívið meira en á leik Íslendinga og Dana en alls óvíst að það slái met Evróvisjón.