Meira horft á handbolta en Skaupið

Íslenska landsliðið hefur hrifið landann með sér.
Íslenska landsliðið hefur hrifið landann með sér. Kristinn Ingvarsson

Sannkallað handknattleiksæði hefur heltekið íslensku þjóðina. Sama hvar komið er ræða menn um gengi íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í Austurríki og ef áhorfstölur Capacent eru skoðaðar sést hversu stór hluti þjóðarinnar fylgist með á skjánum.

Flestir horfðu á leik Íslands og Danmerkur í riðlakeppninni en þá var uppsafnað áhorf 81,7%. Til samanburðar má nefna að uppsafnað áhorf á áramótaskaupið síðasta var 78% og árið 2008 var það 82,2%.

Landsleikurinn kemst þó ekki með tærnar þar sem Evróvisjón hefur hælana. Fátt virðist sameina þjóðina betur og uppsafnað áhorf á framlag Jóhönnu Guðrúnar var 92%. Úrslitakeppni Evróvisjón árið 2008 fékk einnig gífurlegt áhorf, eða 91%.

Klukkan eitt í dag verður flautað til leiks í viðureign Íslendinga og Frakka. Allar líkur eru á því að áhorf verði ívið meira en á leik Íslendinga og Dana en alls óvíst að það slái met Evróvisjón.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert