Lögreglan á Selfossi stöðvaði mann grunaðan um ölvun við akstur í nótt, eftir að ábendingar höfðu borist um að hann keyrði um bæinn með auka-stuðara aftan á bíl sínum.
Maðurinn hafði setið að sumbli á 800 bar þegar hann ákvað að keyra heim. Heimferðin hófst ekki gæfulega, því á planinu fyrir utan barinn bakkaði hann á kyrrstæðan bíl, með þeim afleiðingum að stuðari bílsins sem keyrt var á losnaði og festist aftan á bíl hins ölvaða.
Lögreglunni bárust fjöldi ábendinga um undarlegt ökulag manns, sem auk þess væri með auka-stuðara aftan á bíl sínum. Þegar hún stöðvaði manninn var hins vegar auka-stuðarinn horfinn.