Nafn Boga Nilssonar, fyrrverandi ríkissaksóknara, er á lista yfir þá sem flugu með einkaþotum sem Glitnir og eignarhaldsfélagið Milestone leigðu saman hjá þotuleigunni Netjets á árunum fyrir bankahrun. Þetta kemur fram í DV í dag.
Fram kemur í blaðinu að á listanum séu nöfn fjölda starfsmanna Glitnis og Milestone en einnig margra ættingja þeirra, maka og barna. Bogi segir við DV, að hann hafi farið í svona flugvél eftir að hann lét af störfum sem ríkissaksóknari sumarið 2007 en ekki vitað á hvers vegum hún var. Tveir synir Boga voru einnig með í ferð.