Kom mjög á óvart

Fyrirhuguð staðsetning Holtavirkjunar í neðri hluta Þjórsár. Árnes til vinstri.
Fyrirhuguð staðsetning Holtavirkjunar í neðri hluta Þjórsár. Árnes til vinstri. Rax / Ragnar Axelsson

„Þetta kemur mér mjög á óvart,“ sagði Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, um þá ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra að staðfesta ekki aðalskipulag í fyrrum Villingaholtshreppi/Flóahreppi vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár.

„Ég skil ekki rökin sem þarna eru sett fram fyrir því að hafna þessu,“ sagði Margrét. Hún sagði að sveitarstjórn Flóahrepps hafi ekki haft tök á að hittast og ræða viðbrögð við ákvörðun ráðherrans. Hún lýsti því eigin skoðunum. Lögfræðingur Flóahrepps er að skoða málið og hvernig er hægt verður að bregðast við. 

Margrét sagði að afgreiðsla málsins hafi tekið óhemju langan tíma. Það lýsi engu öðru en slæmri stjórnsýslu. „Svo kemur þessi niðurstaða eftir allan þennan tíma,“ sagði Margrét.

Hún benti á að samgönguráðuneytið hafi tvisvar úrskurðað um sama mál. Ætla mætti að niðurstaða samgönguráðuneytisins sé eitthvað sem fara mætti eftir, en það virðist ekki hafa verið gert í þessu tilviki. 

Margrét sagði að umhverfisráðherra vísi til 34. greinar skipulags- og byggingarlaga sem fjalli um greiðslur fyrir aðalskipulagsvinnu. Sama lagagrein hafi verið helst til umfjöllunar hjá samgönguráðuneytinu í seinna skiptið sem það fjallaði um málið. 

Margrét sagði að þá hafi greiðslur Landsvirkjunar vegna aðalskipulagsvinnunnar verið úrskurðaðar ólögmætar. Sveitarfélagið hafi því endurgreitt Landsvirkjun það sem hún hafði borgað fyrir skipulagsvinnu sveitarfélagsins. Einnig hafi grein sem laut að þessum greiðslum verið felld úr samkomulagi Landsvirkjunar og Flóahrepps.

„Við töldum að með því værum við búin að uppfylla það sem til væri ætlast af sveitarstjórn. Samt er þessi niðurstaða byggð á sömu 34. grein skipulags- og byggingarlaga,“ sagði Margrét.

„Þetta lítur þannig út fyrir mér að þarna sé verið að taka skipulagsvaldið af sveitarstjórn. Ég get ekki séð annað. Þá er spurning hvort sveitarstjórn er ekki óhæf yfir höfuð til að taka ákvarðanir í skipulagsmálum.“

Margrét sagði það hafa tíðkast hingað til að sveitarfélög fengju greitt fyrir aðalskipulagsvinnu vegna meiriháttar framkvæmda. Það séu því fordæmi fyrir slíkum greiðslum, þótt Flóahreppur hafi endurgreitt Landsvirkjun. 

Margrét sagði að sér væri spurn hvort slík fordæmi hefðu ekkert að segja þegar ákvarðanir, á borð við ákvörðun umhverfisráðherra, væru teknar. Spyrja mætti hvort slíkar fyrri framkvæmdir séu þá ólöglegar í ljósi þessarar niðurstöðu ráðherrans.

Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri Flóahrepps.
Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri Flóahrepps. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert