„Staðan eftir þetta eina ár sem ríkisstjórnin hefur setið að völdum er mun vænlegri en ég reiknaði með. En vissulega hafa viðfangsefnin verið stór og tekið bæði á krafta og taugar,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
Ríkisstjórn Samfylkingar og VG er eins árs í dag, 1. febrúar. Í alþingiskosningum 25. apríl sl. juku stjórnarflokkarnir þingstyrk sinn, náðu hreinum meirihluta og mynduðu í krafti þess núverandi ríkisstjórn, sem tók við völdum 10. maí á síðasta ári.
Segir mörg mál í höfn
Steingrímur J. Sigfússon segir að á síðustu misserum hafi ríkisstjórnin þurft að takast á við mörg stór vandamál, til dæmis í ríkisfjármálum. Skuldir heimilanna séu annað stórt óleyst mál og sér þyki bagalegt að geta ekki liðsinnt þar eins og þörf sé á. Mörg stór mál séu hins vegar í höfn, svo sem endurreisn bankanna. Með þokkalega eiginfjárstöðu hafi ríkisvaldið komið þeim af stað sem sé mikilvægt fyrir endurreisnina.„Ríkisstjórnin mun fljótlega kynna áætlun um opinberar framkvæmdir og útboð,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir þegar hún flutti stefnuræðu sína á Alþingi í febrúar á síðasta ári. „Við vitum að stórir framkvæmdaaðilar bíða hreinlega eftir því að hefjast handa,“ sagði forsætisráðherra við sama tilefni og sagði að gripið yrði til vissra aðgerða til að bregðast við fjárhagsvanda heimila í landinu í virku samráði við hagsmunaaðila. Þá yrði gjaldþrotalögum breytt svo réttarstaða skuldara yrði betri.
Mikið talað en lítið gert
„Það hefur mikið verið talað en lítið gert og ríkisstjórnin hefur ekki nýtt sér tækifæri,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks. Skuldavandi heimilanna og nauðsyn atvinnuuppbyggingar ætti að vera viðfangsefni dagsins en ríkisstjórnin hefði þess í stað lagt allt kapp á aðildarumsóknina að ESB og lausn Icesave-deilunnar.„Ríkisstjórnin hefur staðið sig hörmulega og árangurinn er samkvæmt því,“ segir Einar Kr. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann segir stjórnina hvorki hafa haft kjark né einbeitni til að mæta mikilvægum málum og geti ekki endalaust afsakað sig með skírskotun til fortíðar. Stórmál svo sem Icesave og skuldavandi heimilanna séu óleyst og ljóst sé að fjárlög þessa árs muni ekki standast. Ef að líkum láti verði þau komin í uppnám um mitt ár og mótleikurinn verði þá frekari skattaálögur á almenning og atvinnulíf. Einnig sé ágreiningur innan og milli flokka áberandi.