Segir Íslendinga hafa logið

Arnold Schilder
Arnold Schilder

Seðlabanki Íslands laug að stjórnendum seðlabanka Hollands um stöðu Landsbankans fyrir bankahrunið hér á landi, að sögn Arnolds Schilders, sem var í stjórn hollenska bankans. Hollenskir ráðamenn hafa áður sakað Fjármálaeftirlitið á Íslandi um að hafa veitt rangar upplýsingar um stöðu íslenska bankakerfisins sumarið 2008.

„Íslenskir starfsbræður okkar lugu að okkur, ég get ekki orðað það öðruvísi,“ sagði Schilder þegar hann svaraði spurningum hollenskrar þingnefndar sem rannsakar málið. Schilder bar ábyrgð á bankaeftirliti hollenska seðlabankans á þessum tíma. „Við spurðum nokkrum sinnum hvernig gengi. Í hvert skipti sögðu þeir okkur ... að ekkert væri að.“

Hollensk rannsóknarnefnd fjallar nú um efnahagshrunið þar í landi undir stjórn þingmannsins Jan de Wit. Hann sagði í síðustu viku, að Fjármálaeftirlitið á Íslandi hafi neitað að senda fulltrúa sinn fyrir nefndina.

Arnold Schilder er nú formaður alþjóðlegrar nefndar um endurskoðunarstaðla, IAASB. Hollenskir fjölmiðlar segja frá ummælum Schilders í dag og segja hann hafa sakað Seðlabankann á Íslandi um að hafa sagt ósatt. 

Fram hefur komið, að hollenski seðlabankinn var í samskiptum við Fjármálaeftirlitið í ágúst 2008 vegna Landbankans. Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sagði á blaðamannafundi í október 2008, að hollenski seðlabankinn hefði fram á síðustu stundu fengið upplýsingar frá Íslandi um að allt væri í lagi með Icesave-reikningana. Hann hélt því einnig fram á sama fundi að seðlabankinn hefði fengið rangar upplýsingar um greiðsluþol íslensku bankanna frá Fjármálaeftirlitinu á Íslandi út septembermánuð.

Icesave-reikningar Landsbankans voru opnaðir sem útibú í Hollandi þann 29. maí 2008. Þegar þeim var lokað í október, rúmum fjórum mánuðum síðar, voru viðskiptavinir þeirra orðnir 114.136 talsins. Innstæður á reikningum þeirra voru 1.674 milljónir evra, nærri 300 milljarðar króna á núverandi gengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert