Karl Th. Birgisson ritar grein á vefinn Herðubreið í dag undir fyrirsögninni: Taktu leikhlé, herra forseti. Þar kemur fram að Ólafur Ragnar Grímsson hafi breytt forsetaembættinu með ýmsum hætti síðastliðin fjórtán ár. Flest af því hafi verið til góðs, en nú sé hann lagður af stað í ferðalag sem meira að segja hann taldi líklega óhugsandi hér forðum daga.
„Það hefur alltaf verið kristaltært í málflutningi forsetans að sú ákvörðun, að synja lögum staðfestingar, gæti ekki og mætti ekki að byggjast á afstöðu hans sjálfs til laganna. Slíka ákvörðun ætti alltaf að taka af öðrum ástæðum, þó einkum eðli málsins sjálfs, til dæmis ef um væri að ræða framsal á fullveldi landsins, að myndazt hefði „gjá milli þings og þjóðar“ eða aðrar viðlíka aðstæður væru uppi.
Samkvæmt stjórnarskránni hefur forsetinn nefnilega ekki neitunarvald, heldur málskotsrétt – forsetinn getur skotið málum til þjóðarinnar þegar mikið liggur við.
Þetta kom skýrt fram í forsetakosningunum 1996, þar sem málskotsrétturinn var töluvert til umræðu, og aftur í yfirlýsingum sem forsetinn sendi frá sér þegar hann synjaði lögum staðfestingar 2004 og nú 2010.
Í bæði skiptin byggðist rökstuðningurinn á eðli málsins og aðstæðum í samfélaginu.
Forsetinn tók enga afstöðu sjálfur. Hann vísaði málinu einfaldlega til þjóðarinnar til ákvörðunar.
Fínt hjá honum.
Vandinn er hins vegar sá, að í kjölfarið hefur hann lagzt í nýja útrás," skrifar Karl.
Að sögn Karls renna upp úr forseta Íslands yfirlýsingarnar um að Iceasvaemálið sé byggt á fantabrögðum og fautaskap Breta og Hollendinga og að allt sé þetta nú ómögulegt, ósanngjarnt, ólýðræðislegt og svo framvegis.
„Vel má vera að einhverjum rísi þjóðernishold í fáeinar mínútur við að hlusta á þetta, en hinar frumstæðari hvatir eru ekki gott veganesti.
Þessi málflutningur gengur gegn tveimur prinsippum sem Ólafur Ragnar Grímsson veit að forsetinn má ekki brjóta.
Hann á ekki og má ekki taka afstöðu í máli sem hann hefur vísað til þjóðarinnar til ákvörðunar.
Og hann á ekki og má ekki haga embættisfærslu sinni þannig að á alþjóðavettvangi hafi Ísland nú tvær ólíkar stefnur í tilteknu máli – stefnu alþingis og ríkisstjórnar annars vegar og stefnu hans sjálfs hins vegar.
Látum liggja á milli hluta hvort við erum sammála forsetanum eða ekki – hvort við erum á móti samningnum eða ekki – það skiptir engu höfuðmáli.
Það gengur einfaldlega ekki að uppi sé tvenns konar opinber stefna – tvenns konar utanríkisstefna landsins – í alþjóðlegu deilumáli þar sem mikið er undir.
Fyrir því má færa of sterk rök, að með þessu framferði sé forsetinn beinlínis að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar."
Grein Karls Th. í heild