Verkfalli flugmanna frestað

Samningarnir snúa að Icelandair.
Samningarnir snúa að Icelandair.

„Það er búið að handsala samning á milli aðila. Þannig að verkfalli er frestað fram yfir atkvæðagreiðslu um kjarasamninginn á meðal flugmanna," sagði Örnólfur Jónsson, formaður samninganefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, eftir að samkomulag við Icelandair var í höfn í gær.

„Það verður kosið einhvern næstu daga, eins fljótt og auðið er. Við náum aldrei öllu fram en göngum sáttir frá borði. Ég vil að öðru leyti ekki fara út í efnisatriði," sagði Örnólfur í gærkvöldi en verkfall hafði verið boðað frá og með næstkomandi fimmtudegi.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, fagnar þessum áfanga.

„Samningunum lauk á svipuðum nótum og við var að búast. Síðasta atrennan tók nokkrar vikur. Viðræður hafa staðið yfir sleitulaust í nokkra daga. Samningurinn er í takt við það sem gera mátti ráð fyrir og aðalatriðið er að ekki kemur til neinnar truflunar á flugi,“ sagði Guðjón Arngrímsson í kvöld.

Guðjón Arngrímsson.
Guðjón Arngrímsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert