Samkeppniseftirlitið íhugar að áfrýja til Hæstaréttar dómi sem Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp í dag þar sem staðfest var niðurstaða samkeppnisyfirvalda um að Icelandair hefði brotið gegn samkeppnislögum en stjórnvaldssekt, sem flugfélaginu hafði verið gert að greiða, var felld niður.
Samkeppniseftirlitið og síðar áfrýjunarnefnd samkeppnismála komust að þeirri niðurstöðu árið 2007, að Icelandair hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína og brotið gegn samkeppnislögum með kynningu og sölu á flugfargjöldum, svokölluðum Netsmellum að upphæð 16.900 kr., sem stóðu viðskiptavinum félagsins til boða á árinu 2004 á flugleiðinni milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar annars vegar og á flugleiðinni milli Keflavíkur og London hins vegar.
Samkeppniseftirlitið ákvað að Icelandair skyldi greiða 190 milljónir í stjórnvaldssekt en áfrýjunarnefndin lækkaði sektina í 130 milljónir. Héraðsdómur felldi í dag sektina niður en staðfesti þá niðurstöðu að Icelandair hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með netsmellunum. Taldi dómurinn ekki að brotin væru eins alvarleg og lagt var til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála.