Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í dag úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að Icelandair hefði brotið gegn samkeppnislögum með kynningu og sölu á svokölluðum netsmellum árið 2004. Dómurinn felldi hins vegar niður 130 milljóna króna stjórnvaldssekt, sem áfrýjunarnefndin ákvað.
Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu, að Icelandair hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að bjóða upp á netsmelli til Kaupmannahafnar og Lundúna en Iceland Express var þá komið inn á flugmarkaðinn og flaug til þessara borga.
Samkeppniseftirlitið gerði Icelandair að greiða 190 milljónir króna í stjórnvaldssekt. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti þá niðurstöðu, að í tilboði Icelandair hefði falist skaðleg undirverðlagning og háttsemin verið til þess fallin að viðhalda og styrkja með óeðlilegum hætti stöðu félagsins á markaðnum fyrir áætlunarflug til umræddra áfangastaða. Áfrýjunarnefndin lækkaði hins vegar sektina í 130 milljónir og nú hefur héraðsdómur fellt sektina niður.