Ákæruvaldið fer fram á að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmi Sophiu Hansen í fimm til sex mánaða fangelsi fyrir rangar sakargiftir, en binda megi refsingu skilorði að hluta. Verjandi Sophiu segir að hana beri að sýkna enda samrýmist verknaðarlýsing ekki 148. gr almennra hegningarlaga, sem ákært er eftir. Aðalmeðferð lauk í hádeginu í dag.
Sophia Hansen var ákærð fyrir rangar sakargiftir, með því að hafa falið lögmanni að kæra fyrir sína hönd fölsun á nafni sínu á þremur viðskiptabréfum, veðskuldabréfi, tryggingabréfi og skuldaviðurkenningu, upp á um 42 milljónir króna, og í skýrslutöku hjá lögreglu lýst því yfir að hana grunaði Sigurð Pétur Harðarson, eða einhvern á hans vegum, um að hafa falsað undirskriftir sínar. Þannig hafi Sophia komið því til leiðar að Sigurður Pétur var ranglega sakaður um skjalafals.
Í ákærunni segir, að brotið teljist varða við 148. gr. almennra hegningar laga. Í þeirri grein segir: „Hver, sem með rangri kæru, röngum framburði, rangfærslu eða undanskoti gagna, öflun falsgagna eða á annan hátt leitast við að koma því til leiðar, að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, skal sæta fangelsi allt að 10 árum. Við ákvörðun refsingar skal hafa hliðsjón af því, hversu þung hegning er lögð við broti því, sem sagt er eða gefið til kynna, að viðkomandi hafi drýgt.“
Lögmaður Sophiu bar við það við aðalmeðferðina, að verknaðarlýsingin geti ekki átt við 148. gr. Sophia hafi vissulega kært fölsunina. Hún hafi hins vegar aðeins sagst gruna Sigurð Pétur, en aldrei hafi verið höfðað mál á hendur honum. Hlutlæga afstöðu vanti auk þess sem skýr ásetningur hafi ekki verið fyrir hendi hjá Sophiu að bera á Sigurð Pétur rangar sakir. Af þeirri ástæðu fyrst og fremst beri að sýkna hana.
Lögmaðurinn, Kristján Stefánsson, sagði Sophiu staðfastlega hafa neitað að skrifa undir viðskiptabréfin. Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu, að það hafi hún gert ætti brot hennar að falla undir 149. gr. almennra hegningarlaga. Í henni segir: „Hver, sem gerist sekur um rangan uppljóstur til yfirvalds um að refsiverður verknaður hafi verið framinn, svo og hver sá, sem ber fram rangar kærur við forsetann, Alþingi, dómstóla eða yfirvald, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.“ Hins vegar sé ekki ákært á grundvelli þess ákvæðis laganna.
Sækjandi í málinu, Karl Ingi Vilbergsson fulltrúi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, sagði málið einfalt. Sophia hafi falið lögmanni að kæra falsaðar undirskriftir sínar á umræddum bréfum. Við skýrslustöku hafi hún sagt telja Sigurð Pétur eða einhvern á hans vegum standa að baki fölsuninni og með því hafi hún borið á hann rangar sakir. Sigurður Pétur hafi legið undir grun um skjalafals og verið til rannsóknar lögreglu. Það hafi verið íþyngjandi fyrir hann, ekki síst vegna fjölmiðlaumfjöllunar. Hann segir Sophiu hafa framið alvarlegt brot og að hún eigi sér engar málsbætur.
Karl Ingi rakti í ræðu sinni framburð vitna, s.s. Sigurðar Péturs sem segist hafa verið viðstaddur þegar Sophia skrifaði undir umrædd viðskiptabréf. Sigurður Pétur var sjálfur vottur á öllum bréfunum og Rúna Hansen, dóttir Sophiu, á tveimur. Undirritun tveggja bréfa fór fram í Istanbúl en eins á heimili Sophiu í Reykjavík. Vottur á því bréfi er Sigurður Sigurbjörnsson, vinur Sigurðar Péturs, sem starfaði sem lögreglumaður þegar hann vottaði bréfið.
Einnig benti Karl Ingi á að rannsókn hefði farið fram á undirritun Sophiu og að sænskur rithandarsérfræðingur hefði komist að þeirri niðurstöðu, að allar líkur væru á því að Sophia hefði skrifað undir viðskiptabréfin. Hverfandi líkur væru hins vegar á því að Sigurður Pétur hefði gert það. Karl Ingi taldi ekkert hafa komið fram í málinu sem sem styðji framburð Sophiu og eindregna neitun sakar.
Fyrir dómi var tekin skýrsla af Sophiu, Sigurði Pétri, Rúnu, Sigurði Sigurbjörnssyni, Ragnari H. Hall, Herði Péturssyni, sænskum rithandarsérfræðingi og Eiríki Gunnsteinssyni.
Sophia sagðist ekki kannast við að hafa skrifað undir viðskiptabréfin þrjú. Hún sagðist hafa nefnt nafn Sigurðar Péturs hjá lögreglu þar sem hann hefði haldið utan um baráttuna „Börnin heim“. Þegar niðurstaða rithandasérfræðingsins var borin undir Sophiu áréttaði hún, að hafa ekki skrifað undir. „Maður þyrfti að vera heiladauður til að skrifa undir svona,“ sagði Sophia og hafnaði því einnig alfarið að dóttir hennar, Rúna, hafi skrifað undir.
Sophia sagði engan hafa verið í sambandi við Rúnu nema hún sjálf, hún tali ekki, skrifi eða skilji íslensku og myndi ekki skrifa undir eitthvað sem hún vissi ekki hvað er.
Fleiri gögn voru lögð fyrir Sophiu, s.s. umboð til Sigurðar Péturs og Ragnars H. Hall hæstaréttarlögmanns. Hún sagðist ekki kannast við að hafa undirritað umboðin, né skjölin yfirleitt. „Ég hef ekkert haft með þessi bréf að gera, og hef aldrei haft,“ sagði Sophia.
Sigurður Pétur gaf nokkuð greinargóða skýrslu og bar við að skrifað hafi verið undir tvö viðskiptabréfanna á hótelinu Holiday Inn Crowne Plaza í Istanbúl á árinu 2005. Þangað hafi Rúna komið og vottað annað skjalið, en hitt hafi Sophia farið með heim til hennar. Jafnframt hafi hann snætt kvöldverð með Sophiu, Rúnu og eiginmanni hennar. Skrifað hafi verið undir þriðja skjalið í eldhúsinu hjá Sophiu. Áður hafi Sigurður sótt nafna sinn og mættu þeir þangað saman og vottuðu undirskrift Sophiu.
Veðskuldabréfið útbjó faðir Sigurðar en sjálfur sjá hann um að skrifa það upp. Ragnar Hall samdi tryggingabréfið en Sigurður breytti textanum að hluta og Eiríkur Gunnsteinsson samdi skuldaviðurkenninguna. Sigurður sá um milligöngu gerðar allra þessara skala, auk þess að útbúa sjálfur umboð til síns sjálfs og Ragnars.
Til stóð að dóttir Sophiu, Rúna, kæmi fyrir dóminn til að gefa skýrslu. Ekki kom til þess og var tekin af henni skýrsla í gegnum síma þess í stað. Rúna talar ekki íslensku og gaf skýrslu á tyrknesku með hjálp túlkar. Hún neitaði að hafa vottað umrædd skjöl og einnig að hafa hitt Sigurð Pétur á árinu 2005. Hann hafi hún aðeins þegar hún var lítil, s.s. árið 1990.
Sigurður Sigurbjörnsson kom fyrir dóminn og staðfesti að hann hefði vottað undir umrætt skjal og séð Sophiu skrifa undir. Verjandi Sophiu spurði Sigurð hvort hann hefði vottað fleiri skjöl fyrir hana. Því neitaði Sigurður. Dró þá Kristján fram skjal úr einkaréttarmáli Sophiu og Sigurðar Péturs sem Sigurður Sigurbjörnsson vottaði. Sigurður sagði lögmanninn þá hafa spurt um vottun á öðrum tíma. Hann hafi vottað þetta skjal á sama tíma og hitt.
Í ræðu sinni síðar benti Kristján á að Sigurður hafi hjá lögreglu sagst hafa vottað skjalið 4. júlí, eða sama dag og það er dagsett. Fyrir dómi hafi Sigurður Pétur hins vegar talað um að það hafi verið gert 5. júlí. Sagði hann þetta misræmi draga úr trúverðugleika framburðar beggja.
Ragnar H. Hall staðfesti að hafa skrifað meginmál umrædds tryggingabréfs. Sagðist hann minnast þess að hafa rætt við Sophiu í símann áður en til samningu bréfsins kom. Sophia neitaði því síðar að þau samskipti hefðu farið fram.
Málið var lagt í dóm eftir málflutning sækjanda og verjanda og var það dómtekið. Reikna má með að dómur verði upp kveðinn innan þriggja vikna.