60 sagt upp í hópuppsögnum

RÚV sagði upp fjölda starfsmanna í janúar
RÚV sagði upp fjölda starfsmanna í janúar Árni Sæberg

Alls bárust Vinnumálastofnun 4 tilkynningar um hópuppsagnir í janúarmánuði þar sem sagt var upp 60 manns. Þetta eru færri en á sama tíma í fyrra þegar 10 tilkynningar bárust Vinnumálastofnun og sagt var upp 167 manns.

Um er að ræða fyrirtæki í mannvirkjagerð og upplýsinga og
útgáfustarfsemi. Ástæður uppsagnanna eru verkefnaskortur, endurskipulagning, rekstrarerfiðleikar og minni fjárframlög til opinbers rekstrar. Þessar hópuppsagnir koma til framkvæmda á tímabilinu febrúar til júlí 2010, flestar í apríl, að því er segir á vef Vinnumálastofnunar.

Flestar uppsagnanna eru á höfuðborgarsvæðinu. Nú er ljóst að rúm 300 manns munu missa vinnuna á næstu mánuðum vegna hópuppsagna sem þegar hefur verið ráðist í, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

1.789 sagt upp í hópuppsögnum í fyrra

Alls bárust Vinnumálastofnun 54 tilkynningar um hópuppsagnir á síðastliðnu ári þar sem sagt var upp 1.789 manns. Hafa því að meðaltali um 150 einstaklingar misst vinnuna í mánuði hverjum síðasta árið. Stærsti hluti þeirra starfaði í mannvirkjagerð, eða um 42%, og svo í fjármálastarfsemi, um 18%. Þessar hópuppsagnir sem tilkynntar voru í fyrra hafa flestar komið til framkvæmda nú þegar.

„Í næstu viku mun Vinnumálastofnun birta tölur um atvinnuleysi í janúar og reikna má með að atvinnuleysi komi til með að aukast nokkuð milli desember og janúar, hvort tveggja vegna árstíðaráhrifa svo og undirliggjandi efnahagsþróunar. Skráð atvinnuleysi í desember síðastliðnum var 8,2% og hafði aukist um 0,2 prósentustig frá fyrri mánuði. Alls misstu 113 manns vinnuna vegna hópuppsagna í janúar og áætlaði Vinnumálastofnun fyrir um mánuði síðan að atvinnuleysi kæmi til með að vera á bilinu 8,6%-9,1% í þeim mánuði," samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert