Eignir Landsbankans gætu skilað meiru en áður var talið

Jóhanna Sigurðardóttir ræðir við fréttamenn.
Jóhanna Sigurðardóttir ræðir við fréttamenn. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi, að hugsanlega gætu eignir Landsbankans í útlöndum skilað meiru en talið hefur verið til þessa.

„Það gæti stefnt í það að við fengjum uppundir 100% út úr Landsbankanum og það erum við að vonast til að gerist," sagði Jóhanna og vísaði þá til þess að eignir bankans gætu staðið undir öllum Icesave-skuldbindingum Íslendinga. 

Jóhanna sagðist ekki telja að hægt hefði verið að ná fram pólitískri samstöðu á Alþingi í Icesave-málinu fyrir áramótin miðað við hver staðan var áður en forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar. 

„Nú erum við að reyna að stilla málinu þannig upp að við getum náð niður vöxtunum en það er kannski það litla sem hægt er að  hreyfa í þessu að ná fram hagstæðari vaxtakjörum," sagði Jóhanna.

Hún sagði að nú væri reynt að nálgast málið frá nýrri hlið í fjármögnun, að lækka höfuðstólinn og fá Breta og Hollendinga til að lækka vextina.  Hins vegar væru vextir í  Icesave-lánasamningunum ekki háir miðað við t.d. lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitti þjóðum. 

Jóhanna sagði ljóst, að taka þurfi málið upp að nýju við Breta og Hollendinga hafni þjóðin Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. „En mér finnst enginn spyrja þeirrar spurningar hvað gerist ef lögin verða felld og við náum ekki samningum við Breta og Hollendinga á næstu mánuðum?" sagði Jóhanna.

Hún sagði að skuldaálag íslenska ríkisins væri að versna, lánshæfismatið að lækka og hugsanlega muni samdrátturinn á þessu ári  aukast úr 2 miðað við núverandi spár í 4-5% og samdráttarskeiðið lengjast. „Hvert prósent í hagvexti eru 15 milljarðar króna," sagði Jóhanna.

Hún sagðist þó telja, að árangur hefði náðst í samræðum við breska og hollenska embættismenn að undanförnu og vonir stæðu til þess að hægt væri að ná lendingu í þessu máli innan skamms.

„Við höfum einnig verið að tala um það á okkar vettvangi stjórnar og stjórnarandstöðu, að fá alþjóðlegan verkstjóra sem myndi stýra viðræðunum. (Bretar og Hollendingar) hafa sett þau skilyrði, að stjórn og stjórnarandstaða komi saman að þessu borði; þeir eru orðnir þreyttir á þessu og treysta ekki Íslendingum... Þeir setja einnig þau skilyrði að þetta sé unnið fljótt og vel og við viðurkennum þessa lágmarkstryggingu (20.886 evrur fyrir hvern reikning). Það þýðir hins vegar ekki að við viðurkennum að okkur hafi borið að greiða þetta," sagði Jóhanna.

Jóhanna sagði að greiðslubyrðin af Icesave-skuldbindingum væri 10-15% af landsframleiðslu. Hins vegar næmi greiðslubyrðin vegna tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans 20% af landsframleiðslu og aðeins vextir og verðbætur af þeirri skuld samsvöruðu 20 milljörðum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert