Toyota umboðið reiknar með fyrir lok vikunnar verði ljóst hvaða bíla þarf að innkalla hér á landi vegna mögulegs galla í eldsneytisgjöf. Haft verður samband við eigendur þeirra bíla sem kallaðir verða inn. Talið er að innkalla þurfi allt að fimm þúsund bíla hér á landi.
Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, sagði vitað um tilvik hér á landi sem mögulega geti tengst umræddum galla. Meðan ekki liggi nákvæmlega fyrir um hvaða bíla er að ræða sé ekki hægt að fullyrða hvort þessum galla eða einhverju öðru hafi verið um að kenna.
Ray LaHood, samgönguráðherra Bandaríkjanna, hvatti í dag eigendur Toyota-bíla til að leggja þeim þar til þeir hafa verið lagaðir. Menn eigi ekki einu sinni að aka þeim á verkstæðið, að mati LaHood. Hann sagði þetta í ræðu í fulltrúadeildinni í dag. Áætlað er að 2,3 milljónir Toyota bíla í Bandaríkjunum kunni að hafa umræddan galla í eldsneytisgjöf.
Úlfar sagði að fólk hér á landi virðist vera yfirvegaðra vegna þessa en víða annars staðar, af fréttum að dæma. „Fólk getur komið hingað og við kíkt á það ef það er óöruggt með eitthvað,“ sagði Úlfar.
Hann sagði að eitthvað hafi verið um að bíleigendur hafi hringt og spurst fyrir um málið. Hvort bíll þess sé einn þeirra sem eigi að kalla inn o.s.frv. Hann sagði að ef fólk teldi að bensíngjöfin í bíl þess sé eitthvað stíf þá sé það að sjálfsögðu hvatt til að koma og láta skoða bílinn.
„Við viljum að fólki líði vel þegar það keyrir bílunum,“ sagði Úlfar. Hann sagði að þótt margir bílar verði kallaðir inn sé vitað að einungis þurfi að laga lítinn hluta þeirra. Miðað við um hvaða gerðir bíla ræðir og árgerðir er áætlað að hér geti þurft að innkalla rúmlega fimm þúsund bíla.
„Þessar upplýsingar munu liggja fyrir í lok vikunnar. Í framhaldi af því munum við upplýsa um hvernig staðið verður að þessu þannig að allir séu upplýstir,“ sagði Úlfar. Hann sagði vonast til að hægt verði að senda út upplýsingar um fyrirkomulag innköllunarinnar fyrir vikulokin.
„Þá vitum við nákvæmlega hvaða bílar þetta eru,“ sagði Úlfar. „Við munum þá senda bréf til allra í framhaldinu.“