Ísland þolir dagsljósið

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG. Kristinn Ingvarsson

„Þetta er það sem ég alltaf þóttist vita að þegar umræðan er opnuð til almennings erlendis og hættir að vera fárra manna tal í leynd þá breytist allt. Málstaður Íslands þolir nefnilega dagsljósið,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, um breytta stefnu norskra stjórnvalda í Icesave-málinu.

„Þess vegna hefur krafan alltaf verið uppi af hálfu gagnaðila okkar um leynd. Okkar hagsmunir eru hins vegar gagnsæi og opin umræða.“

Dapurleg aðkoma Norðurlandanna 

Ögmundur fagnaðar tíðindunum.

„Þetta eru gleðileg tíðindi og gríðarlega mikilvæg. Eitt það dapurlegasta í Icesave-deilunni hefur verið aðkoma Norðurlandanna að þessu máli og hvernig þau hafa látið nota sig í aðförinni að Íslendingum.

Norðmenn hafa reyndar verið okkur hliðhollari en aðrar Norðurlandaþjóðir en þó verið með þá stefnu að Íslendingum beri að verða við öllum kröfum Breta og Hollendinga og ganga frá samkomulagi á þeirra forsendum.

Þessar fréttir gefa hins vegar vísbendingu um stefnubreytingu. Norðmenn ætla með öðrum orðum að koma fram við okkur sem fullvalda ríki en ekki bandingja Alþjóðagjaldeyirssjóðsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert