Kemur afstöðubreyting Norðmanna ekki á óvart

Miðborg Osló. Konungshöllin í bakgrunni.
Miðborg Osló. Konungshöllin í bakgrunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta er í samræmi við það sem hefur komið fram í samtölum mínum við norska ráðamenn,“ segir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, um afstöðubreytingu Norðmanna til lánafyrirgreiðslu handa Íslendingum.

„Í samtölunum hefur komið fram að Norðmenn ætli ekki að yfirgefa okkur í þessu máli. En ég auðvitað fagna því að þetta skuli koma fram með þessum hætti,“ segir Össur.

Breytir ekki eðli málsins

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingar og formaður fjárlaganefndar, fagnar tíðindunum. Stjórnarflokkarnir hafi alltaf talið að aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ætti að vera óháð Icesave málinu.

Hingað til hafi Norðurlöndin ekki viljað lána fyrr en búið væri að ná sátt um Icesave. „En það er hið besta mál ef búið er að aftengja þessi mál.“

Aðspurður hvort í ljósi tíðindanna liggi minna á að afgreiða Icesave en ríkisstjórnin hefur haldið fram, segir Guðbjartur: „Ef hef ekki trú á að bara það að Norðmennirnir breyti um skoðun breyti miklu.“ Um erfiða milliríkjadeilu sé að ræða sem mikilvægt sé að leysa eins fljótt  og hægt er.

Hafði aldrei trú á öðru

„Ég hef aldrei viljað trúað því fyrr en í fulla hnefana að Norðurlandaþjóðirnar myndu ekki standa með okkur í þessu máli,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

„Mér hefur fundist, þegar ég hef átt í samskiptum við starfsbræður mína á Niðurlöndunum, að það væri þörf fyrir betri útskýringar á málinu. En þegar þær eru gefnar, þá sjá þeir hvað er rétt og sanngjarnt. Og þeir sjá að með því að hindra framgang endurskoðunar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þá eru menn ekki að taka hlutlausa afstöðu, heldur afstöðu með Bretum og Hollendingum,“ segir Bjarni.

Þingmenn eru ekki hissa á afstöðubreytingu Norðmanna.
Þingmenn eru ekki hissa á afstöðubreytingu Norðmanna. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert