Norðmenn breyta um Icesave-stefnu

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. Reuters

Talsmaður Sósíal­íska vinstri­flokks­ins í norska stórþing­inu lét í kvöld hafa eft­ir sér, að norska rík­is­stjórn­in hefði breytt um stefnu varðandi lána­fyr­ir­greiðslu til Íslend­inga. Norðmenn ætli nú að beita sér fyr­ir því inn­an Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins að önn­ur end­ur­skoðun á efna­hags­áætl­un Íslands fari þar fram þótt Ices­a­ve-deil­an við Breta og Hol­lend­inga sé enn óleyst.

Norski frétta­vef­ur­inn ABC hef­ur þetta eft­ir Lars Eg­e­land, tals­manni Sósíal­íska vinstri­flokks­ins, eft­ir þing­flokks­fund flokks­ins síðdeg­is. Sagði Eg­e­land, að ís­lensk­um stjórn­völd­um hefði verið til­kynnt um þetta.

ABC seg­ir, að til þessa hafa Norðmenn haldið fast við þá stefnu, að Íslend­ing­ar verði að leiða deil­ur sín­ar við Breta og Hol­lend­inga til lykta áður en hægt verði að af­greiða frek­ari lán­veit­ing­ar tengd­ar efna­hags­áætl­un Íslands hjá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum. Lán frá Norður­lönd­un­um tengj­ast áætl­un AGS.

Eft­ir að Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, for­seti Íslands, synjaði Ices­a­ve-lög­un­um staðfest­ing­ar í byrj­un janú­ar hafi staðan breyst. Nú eigi að fara fram þjóðar­at­kvæðagreiðsla um lög­in 6. mars. Þetta hafi leitt til þess, að ís­lensku stjórn­ar­flokk­arn­ir hafi farið fram á að fá lán, sem ekki væru skil­yrt Ices­a­ve-mál­inu.

Eg­e­land seg­ir við ABC, að það sé afstaða Sósíal­íska vinstri­flokks­ins, að  ís­lensk stjórn­völd hafi upp­fyllt kröf­ur áætl­un­ar Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins og því eigi af­greiðsla Ices­a­ve-máls­ins ekki að standa í vegi fyr­ir henni. Þau boð hafi borist inn á þing­flokks­fund­inn í dag, að þetta sé nú einnig afstaða norsku rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Eg­e­land seg­ir einnig, að nú sé það afstaða Nor­egs að beita sér fyr­ir því að efna­hags­áætl­un Íslands verði end­ur­skoðuð í annað sinn. Ná­ist það fram eigi að greiða næsta hluta lán­anna án nokk­urra skil­yrða um Ices­a­ve. Íslend­ing­ar hafi sagt, að þeir vilji standa við sín­ar skuld­bind­ing­ar en enn sé hafi ekk­ert sam­komu­lag öðlast gildi.  

Norski Miðflokk­ur­inn, sem á aðild að norsku rík­is­stjórn­inni ásamt Sósíal­íska vinstri­flokkn­um og Verka­manna­flokkn­um, hef­ur frá því á síðasta ári haft þá af­stöðu að Nor­eg­ur eigi að lána Íslandi fé óháð Ices­a­ve-mál­inu. ABC seg­ir, að Fram­fara­flokk­ur­inn hafi einnig tekið þessa af­stöðu og sömu­leiðis Kristi­legi þjóðarflokk­ur­inn en þess­ir flokk­ar eru í stjórn­ar­and­stöðu.

  

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka