Norðmenn breyta um Icesave-stefnu

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. Reuters

Talsmaður Sósíalíska vinstriflokksins í norska stórþinginu lét í kvöld hafa eftir sér, að norska ríkisstjórnin hefði breytt um stefnu varðandi lánafyrirgreiðslu til Íslendinga. Norðmenn ætli nú að beita sér fyrir því innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að önnur endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands fari þar fram þótt Icesave-deilan við Breta og Hollendinga sé enn óleyst.

Norski fréttavefurinn ABC hefur þetta eftir Lars Egeland, talsmanni Sósíalíska vinstriflokksins, eftir þingflokksfund flokksins síðdegis. Sagði Egeland, að íslenskum stjórnvöldum hefði verið tilkynnt um þetta.

ABC segir, að til þessa hafa Norðmenn haldið fast við þá stefnu, að Íslendingar verði að leiða deilur sínar við Breta og Hollendinga til lykta áður en hægt verði að afgreiða frekari lánveitingar tengdar efnahagsáætlun Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Lán frá Norðurlöndunum tengjast áætlun AGS.

Eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, synjaði Icesave-lögunum staðfestingar í byrjun janúar hafi staðan breyst. Nú eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um lögin 6. mars. Þetta hafi leitt til þess, að íslensku stjórnarflokkarnir hafi farið fram á að fá lán, sem ekki væru skilyrt Icesave-málinu.

Egeland segir við ABC, að það sé afstaða Sósíalíska vinstriflokksins, að  íslensk stjórnvöld hafi uppfyllt kröfur áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og því eigi afgreiðsla Icesave-málsins ekki að standa í vegi fyrir henni. Þau boð hafi borist inn á þingflokksfundinn í dag, að þetta sé nú einnig afstaða norsku ríkisstjórnarinnar.

Egeland segir einnig, að nú sé það afstaða Noregs að beita sér fyrir því að efnahagsáætlun Íslands verði endurskoðuð í annað sinn. Náist það fram eigi að greiða næsta hluta lánanna án nokkurra skilyrða um Icesave. Íslendingar hafi sagt, að þeir vilji standa við sínar skuldbindingar en enn sé hafi ekkert samkomulag öðlast gildi.  

Norski Miðflokkurinn, sem á aðild að norsku ríkisstjórninni ásamt Sósíalíska vinstriflokknum og Verkamannaflokknum, hefur frá því á síðasta ári haft þá afstöðu að Noregur eigi að lána Íslandi fé óháð Icesave-málinu. ABC segir, að Framfaraflokkurinn hafi einnig tekið þessa afstöðu og sömuleiðis Kristilegi þjóðarflokkurinn en þessir flokkar eru í stjórnarandstöðu.

  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka