„Þetta eru ánægjulegar fréttir ef það gengur eftir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið notaður með algerlega óviðunandi hætti sem vopn í baráttunni fyrir Breta og Hollendinga," segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, um stefnubreytingu norskra stjórnvalda í Icesave-málinu.
– Telurðu að ríkisstjórnin eigi að bregðast við þessari nýju stöðu með því að leita til hinna Norðurlandanna?
„Ég held að það sé alveg löngu tímabært að hún geri það og að umheiminum verði gert betur kunnugt hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur unnið í þessu máli.
Ég fagna því að vinaþjóðir Íslands skuli vera að leggja okkur lið í þessu því það er óþolandi með hvaða hætti sjóðurinn hefur hagað sér með því að draga lappirnar í þessum endurskoðunum alltaf sýknt og heilagt.“
Gagnrýnir stjórnarflokkana
Þór átelur Vinstri græna og Samfylkinguna fyrir að hafa ekki verið virkari í að óska eftir stuðningi frá Norðurlöndum.
„Okkur í Hreyfingunni hefur alltaf fundist svolítið einkennilegt hvað báðir ríkisstjórnarflokkarnir virðast lítið hafa sóst eftir stuðningi frá Norðurlöndunum.Við hefðum viljað sjá þetta gerast fyrr. Stjórnarflokkarnir gerðu til dæmis dæmalaust grín af framsóknarmönnum þegar þeim var boðið til Noregs á sínum tíma,“ segir Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar.