Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fullyrti á Alþingi að íslensk stjórnvöld hefðu ekki logið að erlendum eftirlitsstofnunum síðsumars árið 2008.
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bar undir Björgvin þau ummæli, sem fyrrum embættismaður í hollenska seðlabankanum lét falla fyrir hollenskri þingnefnd á mánudag. Sagði embættismaðurinn að íslenskir embættismenn hefðu veitt rangar upplýsingar um stöðu íslensku bankanna í aðdraganda hruns fjármálakerfisins haustið 2008.
Björgvin, sem var viðskiptaráðherra á þessum tíma, vísaði til yfirlýsingar frá Jónasi Fr. Jónssyni, þáverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, sem birtist í gær. Jónas sagði í yfirlýsingu sinni, að starfsmenn Fjármálaeftirlitins hefðu veitt þær upplýsingar um fjárhag Landsbankans, sem þeir töldu réttar hverju sinni byggðar á fyrirliggjandi gögnum frá bankanum og hálfsársuppgjöri 2008, árituðu af endurskoðendum bankans. Hefði starfsfólk Fjármálaeftirlitsins lagt sig fram um að sinna starfi sínu af fagmennsku og heiðarleika.