Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á áttræðisaldri í 2 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot með því að hafa tælt unga stúlku með gjöfum, m.a. peningum, skartgripum og fatnaði og með öðrum hætti til að hafa við sig nánast daglega samræði og önnur kynferðismök í fjögur ár frá byrjun árs 2002 þegar stúlkan var 14 ára.
Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 1,2 milljónir króna í miskabætur.
Stúlkan kærði manninn til lögreglu árið 2008. Sagðist stúlkan hafa séð manninn fyrst árið 2000 þegar hún var 13 ára og að vinna í verslun. Hann hefði síðar boðið henni bílfar heim til sín og bauð henni einnig vinnu og gefið henni peninga og skartgripi.
Fljótlega hefði maðurinn farið að bjóða henni heim til sín og m.a. boðið henni að nota ljósabekk, sem hann hefði verið með á heimili sínu. Eftir nokkur skipti hefði maðurinn beðið hana um að afklæðast og tekið af henni vídeómyndir og síðan farið að hafa við hana samfarir.
Stúlkan sagðist hafa átt kynferðislegt samneyti við manninn nánast daglega frá því að hún var 13 ára til tvítugs. Eftir að hún hætti samskiptum við manninn fór hún í meðferð vegna fíkniefnaneyslu.
Maðurinn viðurkenndi að hafa átt kynferðislegt samneyti við stúlkuna en sagði það hafa hafist nokkrum árum eftir þau kynntust. Dómurinn taldi hins vegar framburður stúlkunnar og vitna stöðugur og trúverðugur og segir í niðurstöðu sinni, að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að manninum hafi frá upphafi verið kunnugt um réttan aldur stúlkunnar og ljóst að maðurinn nýtti sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs- og þroskamunar til fá vilja sínum framgengt.
Dómurinn segir, að maðurinn eigi sér engar málsbætur og hann hafi brotið gróflega og ítrekað gegn ungri stúlku á viðkvæmu aldurs- og þroskaskeiði hennar. Hafi honum mátt vera ljóst hversu alvarlegar afleiðingar atferli hans hlaut að hafa fyrir líf og sálarheill stúlkunnar.
Þá segir dómurinn ljóst, að háttsemi af þessu tagi sé almennt til þess fallin að valda þeim, sem fyrir verður, margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Í greinargerð sálfræðings komi fram að sú hafi orðið reyndin að því er stúlkuna varðar og samskiptin við manninn hafi haft alvarleg og víðtæk áhrif á hana.