Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, óskaði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun eftir viðbrögðum Katrínar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, við ummæli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar að ákvörðun umhverfisráðherra þess efnis að synja skipulagsbreytingum í neðri hluta Þjórsár staðfestingar muni tefja atvinnuuppbyggingu í tvö ár. Spurði hann hvaða aðrir virkjunarkostir væru í hendi til að sinna atvinnubyggingu?
Katrín Júlíusson, iðnaðarráðherra, sagði fjölmarga aðra kosti á borðinu í orkuuppbyggingu. Hjá Landsvirkjun væri lögð mikil áhersla á svæðin fyrir norðan í Þingeyjarsýslum. Fara þyrfti í markaðs- og kynningarmál til að beina áhuga fjárfesta inn á þetta svæði. Einnig nefndi hún Búðarhálsvirkjun. Sagði hún rétt að mikill áhugi væri á græna orku og því mikil bjartsýni í tengslum við það.
Kristján Þór sagðist vissulega gleðjast að áhersla væri á Norðurlandið, en hins vegar mætti vera ljóst að orkan þaðan myndi ekki nýtast til vinnslu fyrir sunnan. Hann kallaði eftir afstöðu ráðherra til virkjanakosta á Suðurlandi.
Katrín benti á að Landsvirkjun hefði gert samning við Verne Holding um uppbyggingu á Reykjanesi. Minnti hún jafnframt á að aldrei hefði staðið til að nýta orkuna úr Þjórsárverum í Helguvík.