Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur lagt til við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að Sveitarfélaginu Álftanesi verði skipuð fjárhaldsstjórn sem hafi forystu um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins.
Kristjáni L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var afhent bréf þessa efnis í dag.
Í bréfinu kemur fram að eftirlitsnefndin hafi gert fulltrúum sveitarstjórnarinnar, forystumönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu grein fyrir því að til þessarar ráðstöfunar gæti komið. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra átti síðdegis í dag fund með bæjarfulltrúum Sveitarfélagsins Álftaness og gerði þeim grein fyrir tillögu eftirlitsnefndarinnar. Kom fram þar að hann myndi ákveða næstu skref í málinu mjög fljótlega.
Í bréfi eftirlitsnefndarinnar kemur meðal annars fram:
Fjárhagur Sveitarfélagsins Álftaness hefur verið til athugunar hjá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um skeið. Í samræmi við samkomulag nefndarinnar og bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness 17. desember 2009 skilaði bæjarstjórn 27. janúar eftirlitsnefndinni skýrslu um aðgerðir í fjármálum sveitarfélagsins.
Í skýrslunni er gerð ítarleg grein fyrir margvíslegum aðgerðum til að auka tekjur og skera niður útgjöld árin 2010 til 2013. Nemur ávinningur þessara aðgerða 228 milljónum króna á þessu ári og 291 milljón króna árið 2011. Heildartekjur árið 2010 eru áætlaðar 1.312 milljónir króna og þrátt fyrir verulegan niðurskurð rekstrargjalda telur eftirsnefndin að rekstur bæjarfélagsins sé í járnum fyrir fjármagnsliði og afskriftir.
Skuldir sveitarfélagsins í árslok 2009 eru áætlaður um 3,1 milljarður króna. Skuldbindingar vegna rekstrarleigusamninga og annarra langtímasamninga eru áætlaðar 4,1 milljaður króna. Skuldir og skuldbindingar í árslok 2009 eru því áætlaðar rúmlega 7,2 milljarðar króna samkvæmt skýrslunni sem er svipuð fjárhæð og fram kom í skýrslu sem eftirlitsnefndin birti bæjarstjórn í desember 2009.
Í skýrslu bæjarstjórnar kemur fram að þrátt fyrir tillögur um hagræðingu í rekstri, skuldbreytingu lána og niðurfellingu skuldbindinga í nokkrum mæli getur sveitarfélagið ekki skilað hallalausum rekstri eða staðið við skuldbindingar sínar. Ljóst er því að grípa þurfi til margvíslegra ráðstafana til að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins. Telur eftirlitsnefndin að sveitarfélagið þoli vart skuldir og skuldbindingar umfram 2-2,5 milljarða króna. Fram hefur komið að sveitarfélagið er komið í greiðsluþrot og hefur þegar fengið fyrirframgreiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að greiða brýnustu útgjöld og skammt er í næstu bráðagreiðslur.