Bæjarstjórn Álftaness hefur verið boðuð á fund í samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu síðdegis í dag. Þá mun Kristján L. Möller, samgönguráðherra, kynna hvaða tillögur eftirlitsnefnd sveitarfélaga hefur gert um úrbætur í fjármálum sveitarfélagsins.
Eftirlitsnefndin kynnti niðurstöður sínar fyrir ráðherra fyrr í dag. Niðurstöður nefndarinnar verða gerðar opinberar í kjölfar fundar ráðherra með bæjarstjórninni og því fengust í bili ekki nánari upplýsingar um efni þeirra í samgönguráðuneytinu.
Sveitarfélagið Álftanes er í afar erfiðri stöðu. Skuldir þess nema um þremur milljörðum króna og svokallaðar skuldbindingar utan efnahags, sem einkum eru vegna nýrrar sundlaugar og stækkunar á íþróttahúsi, nema fjórum milljörðum. Skammtímaskuldir og eingreiðslulán (kúlulán) nema um 1,2 milljarði og eru með gjalddaga á þessu ári.
Íbúar í sveitarfélaginu eru um 2.500 og eru skuldir á hvern mann því um 2,8 milljónir króna eða ríflega 11 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Útsvar hefur þegar verið hækkað upp fyrir lögbundið hámark, með sérstakri heimild, og fasteignaskattar hækkaðir. Þá er gert ráð fyrir uppsögnum starfsfólks. Það er hins vegar ljóst að þær aðgerðir duga hvergi til að vinna bug á fjárhagsvandanum.
Í skýrslu sveitarfélagsins um fjárhagslegar aðgerðir, sem það skilaði til eftirlitsnefndar í janúar, segir að sveitarfélagið hafi tvo kosti.
Annars vegar að selja eignir til að greiða niður skuldir og skuldbindingar. Til að losna undan skuldbindingum við Eignarhaldsfélagið Fasteign þurfi að lágmarki 1,9 milljarða króna til að kaupa eignirnar sem samningurinn nær til. Að auki þurfi að lækka skuldir um 600 -1.000 milljónir.
Hins vegar að fá aukin framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða ríkissjóði. Án lækkunar skulda og/eða uppkaupa á eignum Fasteignar þurfi framlagið að vera um 300 milljónir króna árlega.
Í skýrslunni segir að eðlilegt sé að leitað sé lausna sem byggja af báðum þessum leiðum og þær eigi að miða að því að gera sveitarfélagið hæft til sameiningar.
Í skýrslunni eru helstu eignir sveitarfélagsins taldar upp:
Sveitarfélagið á 14% hlut í Eignarhaldsfélaginu Fasteign sem er bókfærður á 395 milljónir króna.
Sveitarfélagið á tæplega 1% eignarhlut í Lánasjóði sveitarfélaga sem bókfærður er á 64 milljónir króna.
Sveitarfélagið á skuldabréf sem gefin voru út af Búmönnum vegna kaupa Búmanna á byggingarétti fyrir þjónustuhús og íbúðir fyrir aldraða. Skuldabréfin eru að nafnverði 338 milljónir. Tekið er fram að skuldabréfin gæti þurft að nýta að einhverju leyti við uppgjör, ef sveitarfélagið semur um að losna frá skuldbindingum vegna samnings við Búmenn.
Nota mætti lóðina við Bjarnastaði, gamalt skólahús sem hýsir skrifstofur sveitarfélagsins, undir íbúðabyggingar.
Sveitarfélagið á lóðir og byggingarétti sem það keypti af ýmsum aðilum á árunum 2004-2008. Bókfært verð, sem miðar við kaupverð, nemur nú 488 milljónum króna.
Meðal byggingareita sem sveitarfélagið á er iðnaðarsvæði sem búið er að deiliskipuleggja með 22.000 byggingafermetrum, segir í skýrslunni.
Jafnframt er þjónustu og íbúðasvæði á miðsvæði Álftaness með um 8.000 byggingafermetra.
Í skýrslunni er ekki fjallað um hversu auðvelt gæti orðið að selja þessar eignir í núverandi efnahagsástandi.