„Ég heyrði af því í tengslum við ferðina til Haag eftir samtöl við embættismenn, íslenska og erlenda, að Norðmenn og reyndar Finnar væru orðnir mjög vilhollir Íslendingum en að það væri hins vegar annað upp á teningnum í Danmörku og Svíþjóð,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður framsóknar.
„Ég heyrði að það væri annað upp á teningnum í Danmörku og Svíþjóð, sérstaklega hjá embættismönnum þessara landa sem að beinlínis beittu sér gegn Íslendingum,“ segir Sigmundur og vísar til fundar hans og fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins með fulltrúum breskra og hollenskra stjórnvalda í Haag á föstudag.
„Þá heyrði ég að dönsku embættismennirnir höguðu sér nánast eins og þeir væru að reyna sanna sig fyrir Hollendingum og Bretum. En eftir þessi ótvíræðu skilaboð frá Noregi er lag að fara fram á að hin Norðurlöndin sýni viljann í verki, ef sá vilji er til staðar, til að vera Íslendingum innan handar,“ segir Sigmundur eftir að stefnubreyting norskra stjórnvalda í Icesave-málinu lá fyrir.
Undirstrikar skilaboðin í Noregsferðinni
Sigmundur rifjar upp títtrædda ferð forystumanna Framsóknarflokksins til Noregs síðasta haust þar sem vilji til lánafyrirgreiðslu var kannaður.
„Þetta eru afar góð tíðindi og koma mér ekki algerlega á óvart því þetta er í samræmi við það sem við höfum fengið að heyra þegar við fórum til Noregs í umtalaða ferð. Ekki hvað síst frá Sósíalíska vinstriflokknum.
Sósíalíski vinstriflokkurinn og Miðflokkurinn og fleiri flokkar hafa verið mjög hliðhollir Íslendingum og þetta er til marks um að velviljinn í Noregi og ekki hvað síst í norskum stjórnmálum er miklu meiri en íslensk stjórnvöld hafa vilja vera láta.
Mér sýnist þetta vera þannig að ef þau hefðu brugðist við strax, eins og við lögðum til á sínum tíma, þá hefði þetta gengið hraðar fyrir sig. En þetta hefur gerst þannig að ráðin hafa verið tekin af íslensku ríkisstjórninni. Menn hafa talið sig hreinlega þurfa að hafa vit fyrir henni og komið Íslendingum til aðstoðar með þessum hætti og það er mikið fagnaðarefni.“
Nýti gluggann sem hefur opnast
– Telurðu að íslensk stjórnvöld eigi að hamra járnið á meðan það er heitt og leita eftir sambærilegum stuðningi annars staðar á Norðurlöndum?
„Ég held að þau ættu að gera það og að þau hefðu átt að gera það miklu fyrr.“
Finnski forsætisráðherrann styður Ísland
– Hvað geturðu sagt mér um samskiptin við Finna?
„Samskipti mín við Finna hafa verið í gegnum systurflokk okkar í Finnlandi, Keskusta. Finnski forsætisráðherrann tilheyrir þeim flokki. Ég átti með honum símafund fyrir tveimur til þremur vikum og þar var alveg greinilegt að þar var að finna stuðning við Ísland.
Svo heyri ég það sama á íslensku embættismönnunum. Þeir segja okkur að Finnar séu okkur velviljaðir en að vandamálið sé hins vegar í Svíþjóð og ekki síst í Danmörku, ekki síður meðal embættismanna í þeim löndum heldur en stjórnmálamanna.“